Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gates einbeitir sér að mannúðarmálum

14.03.2020 - 06:56
epa05264169 Co-Chair of the Bill and Melinda Gates Foundation and Microsoft Founder Bill Gates participates in the panel discussion on 'A New Vision for Financing Development' at the World Bank headquarters in Washington, DC, USA, 17 April 2016.
 Mynd: EPA
Bill Gates, annar stofnenda tölvurisans Microsoft, ætlar að víkja úr stjórn fyrirtækisins. Gates ætlar að verja meiri tíma í mannúðarmál. Hann vék einnig úr stjórn Berkshire Hathaway, fjárfestingafyrirtæki auðkýfingsins Warren Buffett.

Gates hætti störfum sem stjórnandi Microsoft árið 2008, en sat áfram í stjórn fyrirtækisins. Nú vill hann einbeita sér að málefnum á borð við heilbrigðis- og þróunarmál á alþjóðavísu, menntun og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Hann segir í yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum LinkedIn að Microsoft verði alltaf mikilvægur hluti af lífi hans, og hann eigi eftir að halda áfram að fylgjast með því sem gerist þar. Hann hlakkar þó til næsta ferils, sem gefur honum tækifæri til að viðhalda vinskap og samstarfi við þá sem skipta hann mestu máli. 

Gates er talinn næst ríkasti maður heims, á eftir Jeff Bezos eiganda Amazon. Gates varð yngsti milljarðamæringur heims árið 1987, þá 31 árs. Gates varð auðugur af stýrikerfinu Microsoft, sem hann bjó til með Paul Allen. Allen lést árið 2018. Þeir gripu fyrsta stóra tækifærið, þegar IBM gerði samning við Microsoft um stýrikerfi í tölvur framleiðandans, sem varð þekkt sem MS-DOS. Síðustu ár hefur Gates helgað mestum tíma sínum ásamt eiginkonu sinni, Melindu Gates, í góðgerðarsamtök sín, sem eru kennd við þau hjónin.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV