Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gat í gegnum jökulinn

Landslag Bárðarbungu í Vatnajökli hefur breyst svo mikið síðan í umbrotunum sem hófust 2014 að nú er í fyrsta sinn hægt að sjá niður í bergið, því 100 metra þykkur ís í sigkötlum hefur bráðnað. Magnús Tumi Guðmundsson segir að ef jarðhiti eykst verulega í Bárðarbungu skapist hætta á jökulhlaupum úr öskjunni. 

Fyrir þremur árum hófust jarðskjálftar í megineldstöðinni Bárðabungu sem leiddu til eldgossins í Holuhrauni. Þá mynduðust tveir sigkatlar í sunnanverðri brún öskjunnar sem fyrst sáust fyrir rúmum tveimur árum. 

Ómar Ragnarsson tók í gær myndirnar sem fylgja fréttinni hér að ofan. Þar sést fremst hinn stóri skriðjökull, Köldukvíslarjökull, í norðvestanverðum Vatnajökli og Bárðarbunga þar fyrir ofan. Hún er næsthæsta fjall landsins, rétt rúmir 2000 metrar. Askjan er ekkert smáræði; þvermálið er tíu kílómetrar og dýptin 700 metrar. 

Sigkatlarnir sem Ómar uppgötvaði láta ekki mikið yfir sér en þeir eru þó hvor um sig um 400 metrar að þvermáli og hafa stækkað.  

„Það sést á þessum myndum niður í gegn, þarna er gat alveg niður í gegnum jökulinn,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði. „Þetta eru kannski 100 metrar niður á klettana sem þarna eru undir. En þarna erum við að sjá í suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar sem að hefur verið jökli hulin.“

Magnús Tumi segir að eftir að kvikan hljóp úr öskjunni og hún seig hafi komið fram jarðhiti í brúnum Bárðarbungu og meira að segja hafi nýjar sigdældir komið fram á þessu ári. Ekki sé því séð fyrir endann á áhrifum umbrotanna. „Ef að jarðhiti vex þar verulega þá gæti vatn farið að safnast þar fyrir inn í öskjunni og þá gæti skapast jökulhlaupahætta. En við vitum ekki til þess að það sé farið að gerast ennþá.“

Jarðskjálftar hafa verið nokkuð tíðir í Bárðarbungu og eru sennilega viðbrögð við umbrotunum 2014 og 15, segir Magnús Tumi. Það þurfi að fylgjast vel með Bárðarbungu bæði vegna skjálftanna og jarðhitavirkninnar, svo ekki fari að myndast sigkatlar, vísindamönnum að óvörum, sem sendi frá sér jökulhlaup.

Ómar Ragnarsson sagði að þegar hann hafi horft ofan í katlana hafi honum fundist að hann væri að horfa á fordyri vítis og að aðdáunin hafi verið óttablandin.  

„Þarna var 100 metra þykkur jökull áður,“ segir Magnús Tumi. „Núna sjáum við þarna niður í klett sem að ekki hefur sést áður. Þannig að það má eiginlega segja að Bárðarbunga í kjölfar þessara atburða, þarna gefi hún okkur aðeins færi á sér, að sýna það land sem að er búið að vera jökli hulið í árhundruð ef ekki þúsundir ára.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV