Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gasvinnsla með bergbroti

05.03.2013 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Fracking er aðferð við að mölva berg, djúpt í iðrum jarðar, til að vinna gas, olíu eða heitt vatn. Með þessari nýju vinnsluaðferð gæti orðið mögulegt að vinna gífurlegt magn af gasi og olíu, sem áður var ekki hægt.

Orkuauðlindirnar gætu haft veruleg áhrif. Dregið úr mikilvægi olíuauðlinda í Miðausturlöndum; gert jarðefnaeldsneyti ódýrara; hægt á þróun umhverfsivænni orkugjafa. Gagnrýnisraddir vara við hættunni á að vatnsból séu eyðilögð; gríðarmikið vatn sé mengað og smáskjálftar fylgi vinnslunni.

Fracking byggir á því að dæla vatni með ákveðnum efnum út í berg, með miklum þrýstingi, og mynda þannig sprungur í berginu. Við það losnar gas eða olía sem föst eru í sandsteini. Á sama tíma gerir ný tækni það mögulegt að bora lárétt eftir jarðlögum í marga kílómetra. Sem eykur mjög það svæði sem hægt er að vinna gas eða olíu úr.

Til að vatnið henti til að sprengja bergið upp, er það blandað sandi, sem sest í sprungurnar sem myndast og heldur þeim opnum, svo hægt sé að dæla gasinu úr þeim. En er einhver hætta eða umhverfisspjöll sem fylgja vinnslu gass og olíu með þessum hætti? Sverrir Þórhallsson, deildarstjóri hjá Íslenskum orkurannsóknum, segir að vinnsluaðferðin hafi verið gagnrýnd vegna þess að mikið vatn sé notað, oft á svæðum þar sem lítið vatn er að hafa. Efnin sem notuð séu, teljist þó ekki stórhættuleg.