Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gárungarnir kalla hann Scott úr markaðsdeildinni

Mynd: EPA-EFE / AAP
Vinir hans kalla hann ScoMo og síðustu vikur hafa landar hans þráspurt hann hvar í andskotanum hann haldi sig. Where the bloody hell are you? Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur oft vakið hneykslan en líklega hefur hann aldrei verið umdeildari en nú. Mörgum þykir hann hafa brugðist seint og illa við gróðureldunum sem nú geisa. 

Hvergi betra að ala upp börn

Morrison tók ekki í mál að sleppa flugeldasýningunni í Sydney um áramótin þrátt fyrir að í gildi væri flugeldabann og margir hefðu krafist þess að fjármagninu yrði frekar varið til neyðaraðstoðar á hamfarasvæðum. Hann sagði mikilvægt að halda í jákvæðnina og fagna nýju ári. Þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hörmungar gengju yfir Ástralíu og það þýddi ekki að láta þær buga sig. Svipaðan tón kvað við í áramótaávarpi hans. Hann sagði að þrátt fyrir allt væri Ástralía besta land í heimi og hvergi betra að ala upp börn. Sumum fannst orðin óheppileg í ljósi aðstæðna í landinu. Raunar þykir margt sem hann hefur sagt og gert undanfarið klaufalegt. 

Það dugði ekki að flýta heimför frá Havaí

Þetta byrjaði allt með fríi á Havaí. Rétt fyrir jól. Á meðan forsætisráðherrann naut lífsins með fjölskyldunni stigmagnaðist vandinn hratt heima fyrir. Talsmenn ráðuneytisins voru í fyrstu tregir til að upplýsa blaðamenn um hvar hann héldi sig og neituðu því að hann væri á Havaí. Morrison flýtti heimför sinni en firrti sig þó vissri ábyrgð þegar hann lýsti því yfir í útvarpsviðtali að hann héldi ekki á brunaslöngu, hann kæmi ekki beint að slökkvistarfinu. Morrison heimsótti næstu daga illa útleikin svæði, faðmaði fólk sem misst hafði heimili sín og hlúði að slösuðum vamba en óánægjuraddirnar lækkuðu samt ekki. Á milli jóla- og nýárs þótti gagnrýnendum hann helst til fálátur, hann sendi frá sér skriflegar yfirlýsingar en kom ekki mikið fram opinberlega og svaraði ekki spurningum fjölmiðla. Þá var hann tregur til að samþykkja það að greiða slökkviliðsmönnum í sjálfboðavinnu laun vegna vinnutaps en féllst loks á það. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

This is Blossom, a rescue wombat I met today when I visited the Ilford/Running Stream RFS in NSW. She was being treated for smoke inhalation. These terrible bushfires our brave firefighters are battling across the country have not only had a devastating impact on homes, lives and communities but also on many animals as well. Today I inspected the fires to Sydney’s west through the Blue Mountains and out to Lithgow and Mudgee. The scale of the fire and the decimation left behind is hard to describe. I also visited the Mudgee Evacuation Centre as well as the Cudgegong District RFS HQ. Here they are dealing with the dual challenges of fire and drought. Once again, I was inspired by the spirit of people on display in these communities and the way they're supporting each other. I want to assure Australians the scale, coordination and the level of professionalism of the response nationally to this disaster is world-class and we’ll continue to work together to get through this and we’ll give every resource the states and territories ask of us.

A post shared by Scott Morrison (@scottmorrisonmp) on

Gagnrýndur fyrir tillitsleysi

Eldarnir ágerðust. Fleiri létust. Fólk lokaðist inni á hættusvæðum. Heilu þorpin nánast brunnu til grunna. Þegar Morrison heimsótti eitt þessara þorpa í upphafi árs fékk hann kaldar kveðjur. Íbúar, sem sumir höfðu misst allt sitt, sökuðu hann um vanrækslu. Sumir gerðu hróp að honum og neituðu að taka í höndina á honum. 

Morrison sagðst skilja þessi viðbrögð, fólk ætti um sárt að binda.  Hann hafi viljað vera til staðar og veita stuðning vildi einhver þiggja hann. Eftir heimsóknina var Morrison gagnrýndur fyrir ónærgætni. Hann teygði sig sjálfur eftir hönd slökkviliðsmanns sem ekki vildi rétta fram höndina. Hann skiptist á örfáum orðum við unga konu og klappaði henni á öxlina. Annar maður kom aðvífandi og sussaði á konuna en Morrison gekk á brott áður en hún gat lokið máli sínu. 

Alltaf verið vel tengdur

Síðastliðin ár hafa áströlsk stjórnmál einkennst af ólgu. Morrison varð sumarið 2018 þriðji forsætisráðherrann í landinu á þremur árum. Hann hafði lengi verið vel tengdur en lét ekki mikið á sér bera. Hljóðlega og af yfirvegun fikraði hann sig upp í æðstu valdastöður. Á ögurstundu gat hann sætt andstæð sjónarmið innan frjálslynda flokksins og siglt skipinu áfram. „Ég hef alltaf trúað á kraftaverk,“ sagði Scott Morrison við félaga sína í frjálslynda flokknum í maí í fyrra, þegar ljóst varð að hann yrði áfram forsætisráðherra Ástralíu. Þá búin að sitja í eitt ár. Samsteypustjórn hans, skipuð flokkum á miðjunni og hægri vængnum, náði knöppum meriihluta. Niðurstaðan var þvert á spár og skoðanakannanir og kom honum sjálfum ekki síst óvart.

epa08099231 Australia's Prime Minister Scott Morrison (2-L) and Australian MP Darren Chester (R) tour the Wildflower farm owned by Paul and Melissa Churchman in Sarsfield, Victoria, Australia, 03 January 2020. People in Victoria's worst-hit bushfire spots are being encouraged to leave before conditions worsen, following confirmation of a second death in East Gippsland.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Morrison kynnir sér afleiðingar eldanna.

Stoltur af harðri innflytjendastefnu

Morrison er þrátt fyrir mótlætið síðustu daga, vinsæll stjórnmálamaður, og nýtur stuðnings kolaiðnaðarins í landinu. Hann sat í ríkisstjórn á árunum 2013 til 2018, gegndi meðal annars embætti innflytjendamálaráðherra og stýrði umdeildri herferð sem laut að því að koma í veg fyrir að flóttafólk kæmist sjóleiðina til landsins. Þeir sem reyndu voru vistaðir í búðum á eyjum undan ströndum landsins. Stefnan þótti harkaleg og mannréttindasamtök gagnrýndu aðbúnað í búðunum en Morrison er stoltur af stefnunni, á skrifstofu hans er stytta af bát sem á stendur: „Ég stöðvaði þessa.“

Trúin á Guð mótar ekki stefnuna

Morrison er 51 árs og ólst upp í smábæ í útjaðri Sydney, átti góða og áhyggjulausa millistéttaræsku, gekk í drengjaskóla og naut þess að heimsækja ömmu sína í frístundum. Hann átti sem barn stuttan leikferil, auglýsti meðal annars Vicks hóstamixtúru. Faðir hans var lögreglumaður, sat í bæjarráði og var um tíma bæjarstjóri. Færri sögum fer af móður hans. 

Morrison og Jenny, konan hans, kynntust þegar þau voru 16 ára og hafa verið saman síðan, þau eiga tvær dætur á grunnskólaaldri. Fjölskyldan er í Hvítasunnusöfnuði og sækir reglulega messur í Horizon-kirkjunni í Sydney - hvelfingu sem minnir helst á tónleikahöll. „En það er ekki trú mín á Jesú sem ræður stefnunni sem ég móta,“ lét Morrison einu sinni hafa eftir sér. Hann styðji trúfrelsi og líti ekki á Biblíuna sem stefnuhandbók í pólitíkinni. Hann telst þó íhaldssamur í félagslegu tilliti og lagðist gegn því að heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband áður en sú heimild var lögfest árið 2017.

Umdeild auglýsingaherferð kom í bakið á honum

Morrison nam hagræna landfræði við Háskólann í Nýja Suður-Wales. Etir að hann lauk grunnháskólagráðu gældi hann við það að flytja til Kanada og læra guðfræði í Vancouver valdi þess í stað að byrja að vinna. Hann hefur komið víða við, vann til dæmis fyrir kynningarstofu Nýja Sjálands og stýrði síðar ferðamálastofu Ástralíu, ráðningin var gagnrýnd. Hún þótti pólitísk. Ein kynningarherferð hans varð mjög umdeild. Þar kepptust leikarar við að greina tilvonandi túristum frá öllu því sem Ástralía hefði upp á að bjóða - búið að þvo kameldýrunum, taka frá pláss á ströndinni og hella bjór í glas. Það er allt klárt og hvar í andskotanum ertu? Spurði ung kona á ströndinni.

Auglýsingin var bönnuð í Bretlandi, þetta orðfæri, Bloody hell, þótti of gróft þarna í upphafi 20. aldarinnar. Nú er slagorð herferðarinnar umdeildu notað gegn Morrison sjálfum á Twitter, módelið í auglýsingunni, Lara Bingle, sú sem spurði spurningarinnar upphafllega á ströndinni, átti upptökin að því. 
Gárungarnir á Twitter kalla Morrison ekki ScoMo, þeir kalla hann Scotty from marketing. 

Skrifaði sjálfan sig og flokkinn fyrir auglýsingunni

Auglýsingaherferðir virðast eiga það til að snúast í höndunum á Morrison, sú síðasta fór í loftið fyrir þremur dögum, eftir að ríkisstjórnin ákvað að senda herinn til aðstoðar á hamfarasvæðunum, allt of seint að mati sumra. Í auglýsingunni er farið yfir aðgerðir stjórnvalda, fjármagnið sem á að verja, laun slökkviliðsmanna og greiðslur til þeirra sem misst hafa heimili sín. Undir hljómar þetta upplífgandi lag. Gagnrýnendur segja að með auglýsingunni upphefji Morrison sjálfan sig og notfæri sér hamfarirnar í pólitískum tilgangi. Það er nefnilega ekki ríkisstjórnin sem er skrifuð fyrir auglýsingunni heldur hann sjálfur og frjálslyndi flokkurinn. 

Loftslagsmálin hápólitísk í Ástralíu

Loftslagsvísindamenn eru tregir til þess að kenna loftslagsbreytingum um ákveðna veðuratburði en hörmungarnar sem nú ganga yfir Ástralíu ríma  við það sem vísindamenn hafa varað við áratugum saman, hærri meðalhiti eykur líkur á öfgum í veðurfari. Umræða um loftslagsmál hefur verið áberandi í tengslum við eldana. Loftslagsmál eru hápólitísk í Ástralíu - það sést til dæmis á því hversu lítið fjölmiðlar í eigu fjölmiðlakóngsins íhaldsama, Ruperts Murdoch, hafa fjallað um eldana. Ástralía er það land sem flytur út mest af kolum, 60% heimila fá rafmagn sitt frá kolaverum og Morrison nýtur stuðnings kolaiðnaðarins. Fyrir tveimur árum mætti hann í þingsal með kolamola, talaði um mikilvægi kola fyrir hagkerfi og atvinnuöryggi og kallaði þá sem lýst höfðu áhyggjum af umhverfisáhrifum iðnaðarins móðursjúka. 

Snarvitlaust lið

Í haust sagði varamaður hans að fólk sem tengdi gróðureldana við loftslagsbreytingar væri snarvitlaust góðafólkslið af mölinni. Ástralía hefur verið gagnrýnd fyrir metnaðarleysi í loftslagsmálum heimafyrir og var meðal ríkja sem stóðu á bremsunni gagnvart auknum aðgerðum og skuldbindingum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd í desember.

epa08108978 A mural depicting Australian Prime Minister Scott Morrison among bushfire flames is seen in Tottenham, Melbourne, Australia, 07 January 2020. Scott Morrison's handling of the Australian bushfire crisis has been widely criticized along with his government's inaction on climate change.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Graffití af Morrison. Myndin er tilbrigði við þekkta vefskopmynd listamannsins K.C. Green og kemur Morrison í stað hunds.

Í fyrstu vildi Morrison ekki ræða loftslagsmál í sömu andrá og eldana. Taldi það ósmekklegt. í byrjun þessa árs viðurkenndi hann tengslin milli eldanna og loftslagsvandans. Hann talar um að skynsemin þurfi að ráða í loftslagsmálum, það þurfi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en á sama tíma þurfi að tryggja efnahagslega hagsmuni Ástrala. Margir krefjast þess nú að stjórnvöld endurskoði loftslagsstefnu sína og setji sér metnaðarfyllri markmið. Það er ekki útlit fyrir að orðið verði við kröfum þeirra. Morrison hefur ekki boðað neina stefnubreytingu.