Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gangi ekki upp nema of langt sé gengið

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Nú tekur við ferli þar sem menn loka vefjum hægri og vinstri án aðkomu dómstóla, sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, þegar hann gagnrýndi á þingi samkomulag samtaka rétthafa við fjarskiptafélög um framkvæmd lögbanns á deilisíðurnar Deildu og Pirate Bay.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í fyrra að lögbann sem Sýslumaðurinn í Reykjavík setti á lögbannssíðurnar Deildu og Pirate Bay á sex vefslóðum skyldi standa. Samkvæmt því urðu Síminn og Vodafone að loka á aðgang viðskiptavina sinna að síðunum á þessum sex slóðum. Fljótlega var opnað á deilisíðuna Deildu á öðrum vefslóðum og þá aðhöfðust símafélögin ekkert, heldur gerðu viðskiptavinum sínum áfram kleift að fara á þær slóðir. Þá svöruðu talsmenn helstu fjarskiptafélaga því til að ekki yrði lokað á aðrar síður en þær sem tilgreindar væru í lögbannsúrskurðinum. Þetta breyttist í gær þegar höfundarréttarfélögin STEF, SFH, SÍK og FRÍSK sömdu við fjarskiptafyrirtæki um að loka á fleiri slóðir þar sem þessar síður kunni að spretta upp. Í tilkynningu frá STEF segir að þarna hafi náðst samkomulag um framkvæmd lögbannsins frá í fyrra. Það gengur mun lengra en fyrri framkvæmd.

Virkar ekki fyrr en of langt er gengið

Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati gagnrýndi þetta við upphaf þingfundar í dag. „Þessar aðferðir, að stöðva höfundarréttarbrot, geta nefnilega ekki gengið fyrr en þær hafa gengið of langt. Það er ástæða fyrir því að lögbannskröfur fara í gegnum sýslumenn og dómstóla. Það er vegna þess að lögbann er mjög mikið inngrip. Í frjálsu samfélagi lokar maður ekki á vefi eða gerir rit upptæk nema fyrir því séu ríkar ástæður, líklegt sé að lögbannið skili tilætluðum árangri og fórnarlamb hindrunarinnar geti varið sitt frelsi og sín réttindi."

Helgi Hrafn lýsti áhyggjum af því að fjarskiptafélögin lokuðu fjölda vefsíða á grundvelli samkomulags síns við höfundarréttarfélögin. „Þetta eru hundruð ef ekki þúsundir vefsvæða sem hvorki sýslumaður eða dómstólar munu hafa neitt um að segja. Nú tekur við ferli þar sem menn loka vefum hægri og vinstri án aðkomu dómstóla. Það er nákvæmlega þessi þróun sem við vöruðum við og vörum við enn. Því hún mun halda áfram. Að stilla DNS-þjóninn á tölvunni sinni, til dæmis á DNS þjóninn hjá Google 8.8.8.8, verður gert tortryggilegt, aftur, og menn munu þurfa að ganga ennþá lengra, aftur, eins og við spáðum fyrir í fyrra og spáum fyrir aftur nú."