Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gámur með lyftara inni í lyftist í sjógangi

11.12.2019 - 15:24
Mynd: RÚV / RÚV
Bakkfirðingar hafa ekki farið varhluta af illviðrinu sem farið hefur um landið. Sjór hefur gengið yfir varnargarða og braut á hafnarhúsi á bryggjunni. Þá fór gámur með lyftara inni í af stað í ölduganginum og skall á olíutanki þannig að gat kom á hann. Olía hefur lekið í sjóinn og um bryggjuna en ekki er unnt að gera við tankinn fyrr en veðrinu slotar.

Jón Rúnar Jónsson, hafnarvörður á Þórshöfn, segir að veðrið hafi verið mun skaplegra þar en á Bakkafirði. Þá hafi toppurinn í veðrinu komið seinna á Bakkafjörð. Gamalt skarð hafi verið í varnargarðinum þar en viðbúið sé að það hafi stækkað í látunum í dag og í nótt. 

Jón Rúnar segir alls óvíst hversu mikill olíulekinn sé. Um leið og vind lægi verði það kannað. Á vefmyndavél Langanesbyggðar sést að bryggjan á Bakkafirði er þakin grjóthnullungum. 

Jón Rúnar segir að jafnframt hafi rafmagn farið að hluta til af bryggjunni. Engir bátar hafi farið af stað í veðurhamnum.

 

Fréttastofan tekur feginshendi við myndum og myndskeiðum af veðri og vandræðum, einkum ef myndirnar eru teknar þannig að þær eru meira á breiddina en hæðina, þ.e.a.s. ef símanum er snúið á hlið en ekki upp á rönd.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnmundur Marinósson - RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV