Gamma þarf nýtt fjármagn til að bjarga Upphafi

02.10.2019 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Endurskipuleggja þarf fjárhag Upphafs fasteignafélags og fá nýja fjármögnun inn til að bjarga fyrirtækinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Mána Atlasyni, framkvæmdastjóra Gamma. Gamma rekur fagfjárfestasjóðinn Novus sem á Upphaf. Fyrirtækið er með 277 íbúðir í byggingu.

Kvika eignaðist fyrr á þessu ári allt hlutafé í Gamma og fljótlega var farið í að meta stöðu sjóðsins. Við þá vinnu komi í ljós að eigið fé Upphafs fasteignafélags var verulega ofmetið.

Kostnaður við framkvæmdir verkefna félagsins var verulega vanmetinn og framvinda verkefna ofmetin. Staðan sem upp er komin „kallar á endurskipulagningu á fjárhag félagsins og nýja fjármögnun til að tryggja framgang verkefna og hámarka virði eigna,“ eins og það er orðað í tilkynningu.

Tekið er fram að fyrirtækið eigi verulegar eignir. Þar á meðal 277 íbúðir í byggingu. Með sölu á fullbúnum fasteignum verði hægt að ná verulegum endurheimtum af fjármunum kröfuhafa. Boðaður hefur verið fundur með skuldabréfaeigendum og viðræður hafa átt sér stað við aðra kröfuhafa um björgun félagsins. 

Þá kom einnig í ljós við mat á stöðu Anglina, sem er annar fjárfestasjóður í stýringu Gamma og fjárfesti í fasteignaþróunarverkefnum í Bretlandi, að verkstjórn eins samstarfsaðila sjóðsins var verulega ábótavant og kostnaður vanmetinn. Hefur sjóðurinn fært fjárfestingar sem gerðar voru í samstarfi við umræddan aðila niður, auk kostnaðar við undirbúning byggingar fjölbýlishúss sem hafnað var af skipulagsyfirvöldum.

Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, kemur fram að nýir stjórnendur GAMMA kanni nú greiðslur sem runnu frá Upphafi fasteignafélagi til félaga sem tóku þátt í verkefnum sem fasteignafélagið hefur unnið að. Grunur leiki á að ekki hafi verið eðlilega að greiðslunum staðið. Þar er meðal annars um að ræða greiðslur, samkvæmt heimildum Markaðarins, til félaga sem tengjast Pétri Hannessyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Upphafs, starfsmannaleigunnar Elju, sem er stýrt og að hluta í eigu Arnars Haukssonar, bróður Gísla Haukssonar, eins af stofnendum GAMMA, og til verkfræðistofunnar Erils sem var eftirlitsaðili með fasteignaverkefnum Upphafs.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi