Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gamli og nýi Herjólfur sigla báðir um helgina

30.07.2019 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jan Williams
Gamli Herjólfur siglir ásamt þeim nýja um verslunarmannahelgina. Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Herjólfs segir að tveimur ferðum verði bætt við með gömlu ferjunni yfir Þjóðhátíð. Þannig verði hægt að mæta þörfum Þjóðhátíðargesta. Hann segir að það verði frábært veður, frábært fólk og frábærar siglingar um helgina.

„Hér ætla menn bara að hafa gaman og njóta lífsins á þessum tímamótum. Það verða allir hér með bros á vör og við biðjum ekki um meira en að sjá í hvítan tanngarðinn hjá fólki,“ segir Guðbjartur.

Þegar töluvert uppselt með Herjólfi

Siglingum með gamla Herjólfi verður bætt við á föstudeginum og mánudeginum. Guðbjartur segir að það séu annasömustu dagarnir um verslunarmannahelgina. Nýi Herjólfur siglir átta ferðir á föstudeginum og ellefu á mánudeginum. Með nýtingu gamla Herjólfs verða ferðirnar níu og tólf á þessum tveimur dögum. 

Nú þegar er töluvert uppselt með Herjólfi á þessum dögum, segir hann. Siglt sé að sigla frá tvö að nóttu til miðnættis. Nýja ferjan sigli þannig nánast allan sólarhringinn. Hann segir að Gamli Herjólfur taki miðjan daginn og létti á kerfinu.  

Starfsfólk Herjólfs með uppbrettar ermar

Guðbjartur segir að þetta verði eflaust ekki eina árið sem gamla ferjan siglir samhliða þeirri nýju. Takmarkanir á eðlilegum samgöngum skili afskaplega litlu. Menn verði að vera vakandi fyrir því að mæta fyrirsjánlegri þörf hverju sinni. 

„Það er mikið að gera að koma fólki fram og til baka um helgina. Starfsfólk Herjólfs er allt með uppbrettar ermar og tilbúið að þjónusta þá flutninga sem eiga sér stað yfir helgina.“

Guðbjartur segir að gamli Herjólfur verði til taks í einhvern tíma. Ef eitthvað kemur upp á verði hægt að grípa til hans á meðan verið er að fínstilla og koma nýju ferjunni í rekstur. 

Nýr Herjólfur hóf áætlunarsiglingar í síðustu viku

Nýr Herjólfur hóf áætlunarsiglingar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar í síðustu viku. Þá hafði aðstaða í Vestmannaeyjahöfn verið bætt svo ferjan gæti lagst að bryggju án skemmda. Stefnt er að því að bæta aðstöðuna í höfninni enn frekar í haust. 

Fréttin hefur verið uppfærð.