Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gamanmyndakeppni til að létta lund landsmanna

Gamanmyndahátíð Flateyrar verður hýst að mestu leyti í gömlum lýsistanki við Sólbakka.
 Mynd: Eyþór Jóvinsson - Gamanmyndahátíð Flateyrar

Gamanmyndakeppni til að létta lund landsmanna

24.03.2020 - 09:21

Höfundar

Gamanmyndahátíð Flateyrar hefur ákveðið að setja af stað keppni þar sem keppendur fá 48 klukkustundir til að fullklára gamanmynd. Keppnin er öllum opin og segja aðstandendur að ekki sé þörf á flóknum tækjabúnaði til að gera góða gamanmynd.

Gamanmyndahátíð Flateyrar hefur verið haldin við góðan orðstír síðustu fjögur ár og er stefnt á að hátíðin verði haldin í fimmta sinn núna í haust. Á síðasta ári var í fyrsta sinn keppt í svokallaðri 48 klukkustunda keppni þar sem keppendur höfðu 48 klukkustundir til að fullklára stuttmynd og eina reglan var að þema allra mynda væri fiskur. 

Til að létta lund landsmanna hefur Gamanmyndahátíðin ákveðið að halda aðra slíka keppni í samstarfi við Reykjavík Foto og geta allir áhugasamir skráð sig til leiks, gildir það um einstaklinga, vinahópa og fjölskyldur. Reglurnar eru á þann hátt að hægt er að skrá sig til leiks nú þegar og byrja má á myndinni 27. mars og fá keppendur þá ákveðið þema í hendurnar. Fjörutíu og átta klukkustundum síðar þarf að vera búið að skila inn fullkláraðri stuttmynd. Í kjölfarið fara bestu myndirnar áfram í netkosningu á ruv.is um fyndnustu myndina og fær sigurvegarinn glæsilega Canon myndavél að launum. 

Eyþór Jóvinsson, framkvæmdarstjóri Gamanmyndahátíðar Flateyrar, segir að aðstandendur keppninar vildu leggja sitt af mörkum til að létta lund landsmanna. „Við vorum eins og svo margir að spá í því hvað við gætum gert til að létta andrúmsloftið í samfélaginu á þessum erfiðum tímum og þá kom upp sú hugmynd að setja á laggirnar gamanmyndakeppni. Hugmyndin með keppninni er bæði að gefa fólki frelsi til að skapa skemmtilegt gamanefni og um leið þá fá allir landsmenn fleiri gamanmyndir til að horfa á og stytta sér stundirnar með, enda mikil þörf á upplífgandi afþreyingarefni á þessum tímum,“ segir Eyþór. 

Skráning í keppnina fer fram á heimasíðu Gamanmyndahátíðar Flateyrar. 

Hér má svo sjá myndina Ballarhaf sem sigraði 48 stunda keppnina á síðustu hátíð.