Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gamalt, ryðgað skilti

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Gamalt, ryðgað skilti

18.01.2020 - 08:50

Höfundar

Uppsetning Borgarleikhússins á Vanja frænda ber með sér að ósiðir íslensks leikhúss hafi borið leikstjórann ofurliði segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi.

María Kristjánsdóttir skrifar:

„Þér segið að þér hafið grátið yfir leikritunum mínum. Þér eruð ekki einn um það. En ég skrifaði þau ekki til þess. Það var Stanislavskí sem gerði þau svona væmin. Ég vildi eitthvað allt annað. Ég vildi einfaldlega og í fullri hreinskilni segja: Horfið á ykkur, sjáið hversu lélega og leiðinlega þið lifið! Mikilvægast er að fólk skilji það. Um leið og fólk skilur það verður það að hefja annað, betra líf,“ segir rússneska skáldið Anton Tsjekhov í bréfi til vinar árið 1901.

Þó voru það væmnar leikferðir Konstantins Stanislavskí og leikara hans um helstu borgir Evrópu með leiksýningar á verkum Tsjekhovs sem gerðu hann frægan í vestrinu og sköpuðu harmræna hefð í uppsetningum á verkum hans lengi vel.

Væmin í anda Stanislavskí er hún ekki, sýningin á Vanja frænda eftir Tsjekhov í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Það fyrsta sem skellur á augum áhorfanda er abstrakt leikmynd Barkar Jónssonar byggð á ferköntuðum hörðum formum sem vísa í tré, rússnesk viðarhús Börkur nýtir allt sviðið, alla dýptina og að baki renninga sem sem falla niður úr loftinu og minna á trjáboli verða til önnur endalaus rými fyrir aftan framsviðið þar sem leikurinn fer fram. Áhorfanda verður hugsað til orða prófessorsins í verkinu um óðalssetrið: „Þetta er algjört völundarhús. Tuttugu og sex risastór herbergi sem fólk ranglar um og aldrei er hægt að finna neinn.“ En leikararnir hverfa oft inn í þessi rými þegar þeir fara úr atburðarásinni og eru þar um kyrrt, sýnilegir. Stundum að sýsla við eitthvað, stundum ekki. Stundum orka þeir truflandi. Stundum spyr áhorfandi sig: Ha, sagðist hann ekki vera að fara? Brynhildur notar þarna sömu aðferð og hún notaði í Ríkarði þriðja: leikarar taka upp beint samband við áhorfendur í byrjun og leikarar verða áhorfendur að leik hinna á sviðinu. Hápunkti er náð þegar einn leikarinn nennir þessu ekki lengur hleypur út af sviðinu og tínir af sér búninginn á leiðinni. Fyndið uppátæki það en áhorfanda tekst ekki, öfugt við í Ríkharði, að sjá nokkra sögn í þessari áherslu á leikarana versus áhorfendur sem hefur merkingu fyrir sýninguna.

Leikverk Tsjekhovs segir frá Ívan Petrovitsj Vojniski, ætíð kallaður Vanja, og systurdóttur hans Sonju sem lifað hafa iðjusömu, reglubundnu, tilbreytingarlausu lífi á landssetri sínu langt fjarri Moskvu. Allur arðurinn af óðalinu hefur farið í það að halda uppi í borginni „snillingnum“ í fjölskyldunni fræðimanninum og prófessornum Alexanders Serebrjakov, föður Sonju, en hún og Vanja hafa einnig aðstoðað hann í fræðimennskunni. Drykkfelldur héraðslæknir Astrov, góður vinur Vanja sem Sonja er ástfangin í, færir þó af og til með heimsóknum sínum tilbreytingu inní fábrotið líf þeirra tveggja. En nú er prófessorinn kominn á eftirlaun, fluttur úr borginni og hefur sest að á óðalinu ásamt ungri fallegri konu sinni Jelenu. Allt hið reglubundna líf á óðalinu fer á hvolf. En einnig þurfa heimamenn að horfast í augu við að aðdáun þeirra, dýrkun á menntamanninum hefur byggst á sjálfslygi. Endurskoðun á lífinu er þörf.

Í þessum svipmyndum úr rússnesku sveitarlífi sem Tsjekhov bregður upp í Vanja frænda ætti að vera margt úr að moða fyrir íslenskt samfélag í dag. Í þeim er til dæmis í fyrsta skipti sjónum beint að umhverfismálum í evrópskri leikritun. Í þeim þurfa persónur á umbrotatímum í samfélaginu, mjög svo skyldum okkar, að horfast í augu við að þær hafi látið misnota sig, mergsjúga alla ævi. Og þar er meira segja fulltrúi heilbrigðisstéttanna sem hefur nánast kiknað undan þeim ömurlegu aðstæðum sem honum eru búnar í starfi sínu og umhverfi. Persónur verksins, kómískar og aumkunarverðar í senn, eru því enn heillandi viðfangsefni jafnt fyrir leikara sem leikstjóra.

Í sýningu Borgarleikhússins er enginn þessara þátta dreginn sérstaklega fram umfram það sem texti Tsjekhovs skilar sjálfur, hér í nýrri þjálli nútímalegri þýðingu Gunnars Þorra Péturssonar. Aðaláherslan er á kómíkina í verkinu og mörg bráðskemmtileg atriði verða þar svo sannarlega til. Þá verða einnig til ýmsar fallegar myndir með staðsetningum, períódu búningum Filippíu Elísdóttur, og í lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar sumar þó nokkuð klisjukenndar, „rússneskar“. Í upphafi virðast Valur Freyr Einarsson í hlutverki Vanja og Katrín Halldóra Sigurðardóttir í hlutverki Sonju ætla að fara að skapa eitthvað aldeilis nýtt og áhugavert en þá er þeim og öðrum persónum bara sópað burt í leikstjórninni og Hilmir Snær Guðnason sem Astrov læknir og Unnur Ösp Stefánsdóttir sem Jelena taka yfir sviðið. Vissulega er hlutverk Astrovs engu þýðingarminna en titilhlutverksins Vanja. En að þvílík ofuráhersla sé lögð á persónu Jelenu og það að hún ruglar karla og konur í verkinu í ríminu, helst upp á borði, er nánast óskiljanlegt. Nema ætlunin hafi verið að setja upp léttan gamanleik með ástarívafi. Í stað þess að vinna eitthvað úr verkinu sem skiptir okkur áhorfendur í dag máli. Það ætla ég svo sannarlega ekki Brynhildi Guðjónsdóttur. Geri ráð fyrir að hún, reynslulítill leikstjórinn, hafi verið ofurliði borin af ósiðum íslensks leikhúss.

Og spyr mig umlukin af dynjandi fögnuði og hinni klassísku upprisu áhorfenda í lok frumsýningar: Af hverju hefur íslenskt leikhús ekki lært meira af litháísku leikstjórunum Rimas Tuminas og Lönu Ross sem hafa opnað okkur í gegnum árin svo marga áhugaverða nýja sýn á verkum Tsjekhovs. Af hverju ‒ minnug orða Maxims Gorki í leikskrá úr allt öðru samhengi ‒ af hverju vill íslenskt leikhús svo oft vera „eins og gamalt ryðgað skilti. Það er eins og eitthvað standi á því, en þú getur bara ekki séð hvað það er.“

Tengdar fréttir

Leiklist

Að geta hlegið að harminum og grátið með sprellinu

Bókmenntir

Völuspá á jafn mikið erindi núna og fyrir þúsund árum

Leiklist

Eyðileggur verkið og límir svo saman aftur

Leiklist

Nýr lestur á Ríkharði þriðja nær fögru flugi