Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gallup: Vinstri græn með mest fylgi

30.09.2017 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinstri græn mælast með mest fylgi flokka í nýjum þjóðarpúlsi Gallups og í könnun Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands.

Nú þegar aðeins tæpur mánuður er til Alþingiskosninga birtist hver skoðanakönnunin á fætur annari. Í nýjasta þjóðarpúlsi Gallups sem gerður var dagana 15. til 28. september mælast Vinstri græn stærsti flokkurinn með 25,4% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkurinn með 23,1% fylgi. Píratar mælast með 10,3%, Flokkur fólksins 10,1%, Framsóknarflokkurinn með 9,9% og Samfylkingin 9,3%. Björt framtíð mælist með 4,6% fylgi og Viðreisn 3,6%. Hvorugur þessara flokka næði manni á þing.

Aðrir flokkar eða framboð mælast með 3,7% fylgi samtals, þar af nefndu rúmlega 2% Miðflokkinn og um 1% Dögun. Hafa ber í huga að ekki var tilkynnt um framboð Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, síðar Miðflokksins, fyrr en undir lok könnunartímabilsins, nánar tiltekið 24. september. Því er fylgi Miðflokksins ekki mælt í könnun Gallups nema hluta könnunartímabilsins.

Tæplega 7% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og næstum 6% svarenda segjast  myndu skila auða eða ekki kjósa. Nær 88% gefa upp hvaða flokk þau ætla að kjósa og það er mun hærra hlutfall en hefur verið undanfarið. Sem fyrr segir var könnunin gerð dagana 15. til 28. september. Þetta er netkönnun og voru 4.092 í heildarúrtaki. Þátttökuhlutfall var 60%.

Ólafur Elínarson er sviðsstjóri hjá Gallup. „Það er mikið vissulega að gerast. Í okkar mælingum sjáum við enn að Framsókn er þó með svipað fylgi og hefur verið, í kringum 10-11%. Helstu breytingar sem við erum að sjá hafa verið að gerast að mestu fyrir stjórnarslit, það er að segja fyrir 14. september þá sáum við Vinstri græn vera að hækka og Sjálfsstæðisflokkinn lækka örlítið. Það eru helstu fréttirnar sem við sjáum að breytingar síðustu daga hafa kannski ekki fyllilega komið fram í mælingum ennþá,“

Ólafur nefnir að færri kjósendur virðist óákveðnir nú en oft áður. En hversu lýsandi eru niðurstöður þessarar könnunnar í ljósi þess að hlutirnir gerast hratt í stjórnmálunum þessa dagana?

„Þessi könnun tekur svo stuttlega til atburðarrásar síðustu daga. Það eru aðeins fjórir dagar síðan Sigmundur Davíð tilkynnti að hann færi fram með nýtt framboð þannig að við höfum aðeins fjóra daga í mælingum þarna undir. Á þessum tíma mælist hann með rúmlega 2% hjá okkur. Það verður áhugavert að sjá hvernig fram vindur. En eins og ég segi það er of snemmt að segja til um með svona fáa daga undir í mælingum,“ segir Ólafur.

Morgunblaðið birtir í dag nýja könnun Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands. Þar mælast Vinstri græn stærsti flokkurinn með 28,8% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur næstur með 24,3% fylgi. Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn með 11,6% fylgi. Samfylkingin mælist með 7,5% og Framsóknarflokkurinn mælist með 7%. Þá mælist Flokkur fólksins með 6,5%, Viðreisn er með 4,8% fylgi og Miðflokkurinn 4,6%. Björt Framtíð mælist með 4,3% fylgi. Aðrir flokkar eða framboð mælast með 0,6% fylgi. Könnun Félagsvísindastofnunnar var gerð yfir skemmra tímabil en þjóðarpúlsinn, eða 25. til 28. september. 2.000 manns voru í úrtaki og var þátttökuhlutfall 48%.

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV