Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gallup: Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur

28.10.2016 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í nýrri könnun Gallup. Þetta er síðasta könnun Gallups fyrir kosningar, en sú könnun þykir oft gefa góða vísbendingu um niðurstöður kosninga. Sjálfstæðisflokkur mælist með 27 prósenta fylgi. Píratar með 17,9 prósent, Vinstri græn 16,5 prósent, Framsóknarflokkurinn er fjórði stærsti flokkurinn með 9,3 prósenta fylgi, þá Viðreisn með 8,8, Samfylking með 7,4, Björt framtíð 6,8 prósent og Flokkur fólksins 3,4 prósent. Aðrir flokkar mælast með minna fylgi.

Könnunin var gerð dagana 24. til 28. október og er net-og símakönnun. Síðasta könnun Gallups fyrir kosningar hefur oft verið ansi nærri lagi úrslitum - til að mynda voru vikmörkin í síðustu alþingiskosningum aðeins 1,8 prósent.

Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Gallup, en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr Þjóðskrá. Heildarúrtaksstærð var 3.508 manns 18 ára eða eldri. Þátttökuhlutfall var 55,0% eða 1.728.

 

Gallup er fjórða könnunin sem birtist daginn fyrir kosningar. Niðurstöðurnar eru svipaðar þeim sem birtust í könnun Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar í morgun. Þar mældist Sjálfstæðisflokkurinn með  27,3 prósent, Píratar með 18,4 prósent, Vinstri grænir 16,4 prósent, Viðreisn með 10,5 prósent, Framsókn með 9,9 prósent, Björt framtíð með 6,3 prósent og Samfylkingin mældist með 5,7 prósent.

Samkvæmt könnun MMR, sem birtist í hádeginu, mældist Sjálfstæðisflokkurinn með  24,7 prósenta fylgi, Píratar  með 20,5 prósent, Vinstri græn með 16 prósent, Björt framtíð með 6,7 prósent og Viðreisn með 8,9 prósent. Framsóknarflokkurinn mældist með 11,4 prósent.

Morgunblaðið birti í morgun könnun Félagsvísindastofnunar.  Sjálfstæðisflokkur mældist þar með 22,5 prósenta fylgi, Píratar 21,2 prósent, Vinstri grænir 16,8, og Viðreisn með 11,4 prósent. Framsókn var með 10,2 prósent, Björt framtíð 6,7 og Samfylkingin 5,7 prósent.

Í kvöld mætast svo leiðtogar allra stjórnmálaflokka í sjónvarpsal. Bein útsending í Sjónvarpi og á Rás 2 hefst klukkan 20:05. Þá verður fjallað um umræðurnar í Vikunni með Gísla Marteini strax að þeim loknum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV