Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Galið að Samherji ráði en sjóðir eigi 53% segir Ragnar

21.11.2019 - 19:56
Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Formaður VR gagnrýnir að Samherji stjórni Eimskipi þótt lífeyrissjóðirnir eigi meira en helmingshlut í fyrirtækinu. Þetta sé galin staða, sérstaklega í ljósi þess sem komið hafi fram um meinta vafasama viðskiptahætti Samherja. 

Samherji Holding ehf. á Sæból, sem á Kýpurfélögin, sem eiga Máritíus-félögin, sem aftur halda utan um Samherjastarfsemina í Namibíu, að því er fram hefur komið í tengslum við Samherjaskjölin. 

Samherji Holding ehf. er líka stærsti einstaki hluthafinn í Eimskip eða kjölfestuhluthafinn með 27,1 prósent. Næstmest á Lífeyrissjóður verslunarmanna, 14,9 prósent og þá Gildi 12,4 prósent. Níu lífeyrissjóðir eru í hópi tuttugu stærstu hluthafa í Eimskip og eiga samtals 53 og hálft prósent í Eimskip. 

„Lífeyrissjóðirnir, lífeyrissjóðir landsmanna, almennings, eiga meirihluta í félaginu en fyrirtækinu er stjórnað af Samherja, bæði stjórninni og síðan forstjóra. Og þetta er algerlega galin staða fyrir lífeyrissjóðina að vera í sérstaklega í ljósi þess að félagið, sem á hlutinn og heldur utan um hlut Samherja, Samherji Holding, er einmitt félagið, sem að hefur verið, kom fram í þessum skjölum, þessum rannsóknum bæði Kveiks og Stundarinnar um mjög vafasamar meintar mútur og mjög vafasama viðskiptahætti og aðra spillingu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. 

„Ef ég tala út frá sjónarhorni sjóðsfélagans. Í þessu tilfelli er ég sjóðfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna, þá lít ég á það sem algert hneyksli að þessi staða sé uppi. Bæði það að fyrirtæki í minnihluta skuli stjórna fyrirtækinu og ráða því á meðan að lífeyrissjóðirnir samanlagt eiga meirihlutann í félaginu.“

Ragnar Þór segir VR hafa einmitt skipt út sínum stjórnarmönnum í Lífeyrissjóði verslunarmanna til að verkalýðshreyfingin og VR hefðu sterkari rödd þegar kæmi að ákvörðunum. Það sem hann ætli að gera nú sé að fara á Austurvöll á laugardaginn og mótmæla spillingu og hann ætli líka að koma sjónarmiðum sínum til stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verslunarmanna. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Hluthafalisti Eimskips frá ágúst 2019.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV