Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn harðlega

27.04.2014 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir flokk sinn harðlega fyrir einstrengingslega stefnu sína í evrópumálum en segist ekki ætla að ganga til liðs við nýjan evrópusinnaðan hægriflokk, verði hann stofnaður.

Ragnheiður sat fyrir svörum ásamt Ólafi Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, í þættinum Sunnudagsmorgunn í morgun, þar sem þau ræddu mögulega stofnun nýs Evrópusinnaðs hægriflokks. Ólafur segist búast fastlega við því að flokkurinn verði stofnaður. Ragnheiður segist ekki ætla að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn.

„Nei, ég er í Sjálfstæðisflokknum og ég ætla að vera áfram í Sjálfstæðisflokknum. Ég hef haft þessar skoðanir í Evrópumálum og þær hafa ekkert breyst og ég á ekkert von á því að þær muni breytast, þannig að ég ætla bara að halda áfram að vera í mínum flokki,“ segir Ragnheiður.

Hún vonar að sjálfstæðismenn horfi til þess, miðað við það fallandi fylgi sem hafi verið á flokknum, að kannski þurfi að horfa inn á við og velta fyrir sér hverju þurfi að breyta. „Ef Sjálfstæðisflokknum á Íslandi, flokki sem er að verða 85 ára gamall, finnst það góð grisjun að ekki séu allir á einni skoðun, þá á þessi flokkur bara ekkert heima, ef hann ætlar bara að vera einstefnuflokkur og einstrengingslegur flokkur, þá náttúrulega er hann að missa það sem hann hafði, og hefur haft í gegnum tíðina, allt að 40 prósent fylgi landsmanna sem er dottið niður í 26 prósent og við þurfum að hugsa út frá því,“ segir Ragnheiður.