Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gagnrýnir dönsk stjórnvöld fyrir kynþáttahatur

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2019.
 Mynd: Norden

Gagnrýnir dönsk stjórnvöld fyrir kynþáttahatur

29.10.2019 - 20:59

Höfundar

Jonas Eika, handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, var mikið niðri fyrir þegar hann tók við verðlaununum í Stokkhólmi í kvöld. Hann gagnrýndi í ræðu sinni stefnu danskra stjórnvalda í innflytjendamálum.

Eika hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir smásagnasafnið Efter solen. Hann er einungis 28 ára gamall og því yngsti rithöfundurinn sem hlotið hefur verðlaunin.

• Sjá einnig: Hver er Jonas Eika?

Eika flutti langa ræðu þegar hann tók við verðlaununum og gagnrýndi danska stjórnmálamenn fyrir stefnu sína í innflytjendamálum. Hann beindi orðum sínum sérstaklega til Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur sem sat í salnum. „Í Danmörku er kynþáttahatur bæði menningarlegt og löglegt. Í Danmörku er ríkisrasismi. Ég beini orðum mínum einnig til ykkar, annarra norrænna forsætisráðherra,“ sagði Eika meðal annars í ræðu sinni.

Mynd: SVT / SVT
Jonas Eika flutti ræðu þar sem hann gagnrýndi harkalega innflytjendastefnu danskra stjórnvalda.

Þetta var tíðindamikil verðlaunaathöfn. Frá íslenskum bæjardyrum séð eru stærstu fréttirnar þær að Gyða Valtýsdóttir hlaut þar tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.

Hún þakkaði fjölskyldu sinni og tvíburasystur, Kristínu Önnu Valtýsdóttur, sérstaklega fyrir, en hún er einnig tónlistarkona. „Það er mikil þeysireið að deila sjálfsmynd,“ sagði Gyða í ræðu sinni. „Ég hef lært það að samanburður og keppni færa manni ekki vellíðan. Það er svo mikill vöxtur og tengslamyndun fólgin í því að sjá allt og alla í ljósi eigin verðleika. Því lít ég á þessi verðlaun sem viðurkenningu á því að ég hafi stigið inn í það ljós.“

Mynd: SVT / SVT
Gyða Valtýsdóttir tók við tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs.

Umhverfisverðlaunin voru veitt Gretu Thunberg, sænska loftslagsaðgerðasinnanum. Hún var hins vegar ekki viðstödd athöfnina og hennar í stað stigu tveir fulltrúar hennar á svið, systurnar Isabelle og Sophia Axelsson frá samtökunum FridaysForFuture.

Þær kynntu sig sem verkfallsnema og fluttu ræðu Thunberg. „Við erum á meðal þjóða sem hafa tækifæri á að gera mest, í staðinn sitjum við aðgerðalaus,“ segir meðal annars í ræðu Thunberg þar sem hún afþakkar verðlaunin í mótmælaskyni.

Mynd: SVT / SVT
Isabelle og Sophia Axelsson frá samtökunum FridaysForFuture.

Danska kvikmyndin Dronningen, í leikstjórn May el-Toukhy, hlaut verðlaun fyrir ítarlega lýsingu á hörmulegu fjölskylduleyndarmáli og afleiðingum ofdrambs, losta og lyga sem leggjast á eitt til að leiða aðalpersónuna í óhugsandi ógöngur. 

Í umsögn dómnefndarinnar segir að myndin láti áhorfendum það eftir að átta sig á kjarna og boðskap myndarinnar og dæma um gjörðir aðalpersónunnar Anne, sem tekur upp ástarsamband við stjúpson sinn.

Vinnare av Nordiska rådets filmpris 2019, Hjärter dam (Dronningen) Danmark. Manusförfattare och regissör May el-Toukhy, manusförfattare Maren Louise Käehne och producenterna Caroline Blanco och René Ezra.
 Mynd: Norden
May el-Toukhy, handritshöfundur og leikstjóri Dronningen, Maren Louise Käehne handritshöfundur og framleiðendurnir Caroline Blanco og René Ezra.

Í flokki barna- og unglingabókmennta hlaut norski rithöfundurinn Kristin Roskifte verðlaun fyrir myndabókina Alle sammen teller. Hlýtur hún verðlaunin fyrir verk sem er öðruvísi og einstakt innan sinnar bókmenntagreinar, segir í niðurstöðu dómnefndar. „Með Alle sammen teller setur Kristin Roskifte texta og myndir í samhengi sem er öðruvísi og einstakt í flokki barnabóka af þessu tagi. Þessa bók er hægt að lesa margoft og koma stöðugt auga á eitthvað nýtt.“

Vinnare av Nordiska rådets barn- och ungdomslitteraturpris 2019: Kristin Roskifte, Norge
 Mynd: Norden
Kristin Roskifte, handhafi barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Greta afþakkar verðlaun Norðurlandaráðs

Tónlist

Gyða Valtýsdóttir fær verðlaun Norðurlandaráðs

Menningarefni

Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs