Gagnrýnir að tekjur vegna veiðigjalds minnki

08.11.2019 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Nái tillaga um lækkun veiðileyfagjalds fram að ganga hefur það lækkað um meira en helming frá því að ríkisstjórnin tók við, segir Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis.

Fjárlaganefnd fundaði í gær og þar kom fram breytingartillaga frá stjórnarflokkunum, segir Ágúst Ólafur, um að lækka veiðileyfagjald sem innheimt er af útgerðinni enn frekar en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, þar sem reiknað er með sjö milljörðum króna í veiðileyfagjald. 

„Og nú vilja ríkisstjórnarflokkarnir lækka þau um tvo milljarða til viðbótar síðan fjárlagafrumvarpið kom fyrst fram, sem var nú eingöngu fyrir tveimur mánuðum. Og nú vill svo til að veiðileyfagjaldið er orðið það lágt að það nær ekki einu sinni að dekka þann kostnað sem skattgreiðendur verða fyrir vegna þjónustu við sjálfa atvinnugreinina og í rauninni erum við þá komin í þá stöðu að skattgreiðendur núna eru farnir að borga með stórútgerðinni,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson.

Hann segir kostnaðinn sem veiðileyfagjaldinu fylgi vera 5,1 milljarð króna.

„Og gjaldið sem að útgerðarmen þurfa því að greiða fyrir aðgang að þessari auðlind sem þeir eiga ekki heldur þjóðin samkvæmt lögum er því  í raun orðið að engu. Og annar samanburður sem er afskaplega áhugaverður, er að nú er veiðileyfagjaldið orðið það lágt að það er orðið lægra heldur en tóbaksgjaldið.“

Hann segir tekjur af tóbaksgjaldinu vera  sex milljarða króna. Ágúst Ólafur segir að þegar ríkisstjórnin tók við hafi veiðleyfagjaldið verið 11,2 milljarðar króna, en fari, eins og fyrr segir, í fimm milljarða gangi breytingartillagan eftir.

„Já, sem er meira en helmingslækkun á ekki meiri tíma.“

Ágúst Ólafur segir þetta rökstutt með því að verið sé að taka mið af afkomu og fleiru, en að hans mati sé þetta pólitísk ákvörðun

Hvorki náðist í Willum Þór Þórsson formann fjárlaganefndar né Harald Benedilktsson varaformann við vinnslu fréttarinnar.

Ágúst Ólafur hefur áður gagnrýnt lægra veiðigjald. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi brugðust við slíkri gagnrýni í desember síðastliðnum, þar sem meðal annars var bent á að veiðigjald sé og hafi verið tengt afkomu greinarinnar, það sé 33% af hagnaði.

Ágúst Ólafur segir í samtali við fréttastofuna að arðgreiðslur til útgerðarmanna hafi numið 100 milljörðum króna síðan árið 2010 og hagur sjávar+utvegsins hafi vænkast um 450 milljarða króna á einum áratug.

 

 

 

 

 

 

 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV