Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýnir 3 milljarða tilfærslu á framkvæmdafé spítala

20.11.2019 - 11:05
Mynd með færslu
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata. Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis, gagnrýnir tilfærslur á framkvæmdafé Nýs landspítala milli ára. Framkvæmdastjóri Nýs landspítalans segir að þetta eigi ekki að hafa áhrif á lengd framkvæmdatímans.

Framkvæmdastjóri Nýs landspítala mætir fyrir fjárlaganefnd Alþingis fyrir hádegi í dag til að ræða allt að þriggja milljarða króna tilfærslu á framkvæmdafé við nýjan Landspítala milli áranna 2020 og 2021. Samkvæmt bréfi sem framkvæmdastjóri Nýs landspítala sendi fjárlaganefnd var ákveðið að fullvinna grunn meðferðarkjarnans áður en næsti verktaki hefur störf. Þetta eigi ekki að hafa áhrif á afhendingartíma hússins.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata situr í fjárlaganefnd Alþingis. „Það þýðir líka ef það er satt að þá er hægt að klára verkefnið hraðar ef þau væru með þetta fé á næsta ári.“

Björn Leví segir jafnframt að á sama tíma og þessi áform hafi verið kynnt nefndinni kom bréf frá heilbrigðisráðuneytinu þess efnis að allar áætlanir við framkvæmd nýs Landspítala muni standast.

„Maður veltir fyrir sér hvað er satt. Miðað við gögn málsins virðist þetta vera pólitísk ákvörðun að hægja á framkvæmdum við nýja landspítalann. ég vil bara sjá það sagt. að það sé heiðarlega greint frá því af hverju það er verið að draga úr fjárveitingum,“ segir Björn Leví.

Á næsta ári er gert ráð fyrir fimm milljörðum í Hringbrautarverkefnið svokallað. Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri þess segir í samtali við fréttastofu að það sé nægilegt fé til að standa bak við framkvæmdir á næsta ári.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV