
Gagnrýnin hugsun besta vopnið gegn falsfréttum
Fjallað var um ógnina sem steðjar að lýðræðinu vegna netárása og falsfrétta á málþingi í Háskóla Íslands í dag. Jürgen Klemm, ráðgjafi eistneskra stjórnvalda í netöryggismálum, segir ógnina þá sömu alls staðar í heiminum.
„Þegar við lítum til lýðræðislegra gilda þá er traust í samfélaginu og traust á lýðræðislegum stofnunum mikilvægasti þátturinn,“ segir Jürgen. „Ef grafið er undan traustinu þá fjarar undan lýðræðinu.“
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, líkir stöðugu flæði falskra upplýsinga, sem beitt er í ákveðnum tilgangi, við eitur sem er gefið í smáum skömmtum. „Markmiðið með t.d. falsfréttum er það að sá efa gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum og svo framvegis, og í samfélagi þar sem að er mikið traust þá höfum við mikið að missa ef að við missum þetta traust,“ segir Elfa Ýr.
„Ég held að það skipti alveg gríðarlega miklu máli að við gerum okkur grein fyrir því hvað er að gerast, hvernig er verið að nota persónuupplýsingar um okkur, hvernig er verið að reyna að hafa áhrif á okkur með þeim upplýsingum sem við erum búin að gefa frá okkur,“ segir Elfa Ýr. „Þetta geta verið aðilar innanlands eða utanlands og í raun og veru notað í hinum ýmsa tilgangi.“
Lykillinn sé fræðsla og gagnrýnin hugsun. „Að við séum gagnrýnin á það sem að við sjáum og gerum okkur grein fyrir því að það er náttúrulega ekkert allt rétt og satt sem að er þarna úti,“ segir Elfa Ýr.
Jürgen tekur í sama streng. „Fólk á netinu hagar sér á ólíka vegu. Sumar ógnir beinast að yngri kynslóðinni og aðrar að þeim eldri. Það er nauðsynlegt að upplýsa fólk og mennta.“