Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýna fjölmiðlafrumvarpið í umsögnum

10.01.2020 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsfréttamiðlar eru óánægðir með skilyrði um stuðning í fjölmiðlafrumvarpi um fjölda tölublaða. Kjarninn vill að endurgreiðsluhlutfall frumvarpsins verði hækkað. Lögfræðiprófessor bendir á að tilbúið frumvarp sem ætlað sé að styrkja tjáningarfrelsi hafi ekki enn verið lagt fram á Alþingi. Fimm umsagnir hafa borist um fjölmiðlafrumvarpið til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Umsagnarfrestur rennur út í dag.

Markmið þessa frumvarps mennta- og menningarmálaráðherra er að efla einkarekna fjölmiðla og gera þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu. Í því er gert ráð fyrir að ríkið styrki fjölmiðlana um allt að 18 prósent af kostnaði fjölmiðils við öflun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni og einnig stuðningi sem nemi allt að fjórum prósentum af launakostnaði fjölmiðilisins. 

Fulltrúar héraðsfréttamiðla eða bæjarblaðanna Fjarðarfrétta, Skessuhorns og Austurgluggans hafa skilað inn umsögn og bæjarmiðlarnir Hafnfirðingur, Kópavogsblaðið, Mosfellingur og Skagafréttir sendu sameiginlega yfirlýsingu til fjölmiðla í morgun. Öll nema Skessuhorn lýsa yfir efasemdum um það skilyrði um stuðning í frumvarpinu að gefa þurfi út 48 tölublöð á ári. Það gangi ekki upp. Austurglugginn, eitt þessara blaða, uppfyllir skilyrðið og það leggur til að lágmarkið verði lækkað í 44 tölublöð. 

Kjarninn miðlar ehf. vill meðal annars að endurgreiðsluhlutfallið verði hækkað úr 18 í 25 prósent eins og lagt hafi verið til af nefnd Illuga Gunnarssonar þáverandi ráðherra. 

Eiríkur Jónsson lögfræðiprófessor við HÍ var beðinn um umsögn. Hann veitti forystu nefnd sem gerði níu frumvörp í fyrra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Hann segist í umsögn sinni ekki taka afstöðu til þessa frumvarps en hvetur allsherjar- og menntamálanefnd að taka til athugunar annað frumvap, sem nefndin afgreiddi einróma, en það hafi ekki enn verið lagt fram á Alþingi. Því frumvarpi er ætlað að bæta réttarstöðu blaðamanna vegna greiðslu skaðabóta sem þeim kunni að vera gert að greiða. Með því sé tjáningarfrelsi styrkt en nefndin hafi talið að núverandi réttarástand skapaði hættu á sjálfsritskoðun blaðamanna og þar með kælingaráhrifum á fjölmiðlafrelsi.