Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gagnaversþjófar dulbjuggust sem öryggisverðir

03.09.2018 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum - RÚV
Sindri Þór Stefánsson og aðrir sem ákærðir eru fyrir innbrot í nokkur gagnaver um síðustu áramót dulbjuggust sem öryggisverðir þegar þeir brutust inn í eitt þeirra. Þetta kemur fram í ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum. Yfir tvö þúsund tölvuíhlutum var stolið í innbrotunum.

Ákæra í málinu var gefin út í byrjun júlí en ekki birt sakborningum fyrr en í síðustu viku. Fréttastofa hefur ákæruna undir höndum. Hún varðar innbrot í fjögur gagnaver þrjár nætur í desember og janúar og tilraunir til tveggja innbrota í viðbót. Rannsókn málsins hefur verið gríðarmikil vöxtum og Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði við fréttastofu í mars að málið væri það stærsta sem hefði nokkru sinni komið inn á hans borð.

Misheppnuð innbrot á annarri nótt jóla

Sjö eru ákærðir í málinu og ákæran er tíu liðir. Tveir þeirra eru raunar ótengdir innbrotunum og varða smávægilegt fíkniefnabrot eins sakborningsins og vopnalagabrot annars. Í hinum eru innbrotin rakin, sem og tilraunirnar.

Fyrst var brotist inn í tvö gagnaver að kvöldi 5. desember og aðfaranótt 6. desember. Þau voru á vegum Algrim Consulting slf. og BDC Mining ehf. og bæði á Ásbrú. Á tímabilinu frá 5. desember til 10. desember var svo reynt að fara inn í annað gagnaver BDC Mining þar í nágrenninu, án árangurs.

Aðfaranótt 15. desember var farið inn í gagnaver AVK ehf. í Borgarnesi og aðfaranótt annars í jólum var aftur reynt við bæði gagnaver BDC Mining ehf. á Ásbrú, en mennirnir eru sagðir hafa flúið af hólmi þegar þjófavarnakerfi fór í gang.

Síðasta innbrotið var svo framið aðfaranótt 16. janúar í gagnaveri Advania Data Centers á Ásbrú.

Mynd með færslu
Gagnaver Advania Data Centers.

2250 íhlutir – minna virði en áður hefur komið fram

Í umfjöllun um málið til þessa hefur verið talað um þjófnað á 600, sérhönnuðum til Bitcoin-framleiðslu, að andvirði um 200 milljóna króna. Ákæran sýnir að málið er heldur flóknara. Þar er talað um að í gagnaverunum fjórum hafi um 2250 tölvuíhlutum verið stolið, þar á meðal 350 bitcoin-tölvum, nálega 500 aflgjöfum og spennum, yfir 800 skjákortum, 120 móðurborðum og jafnmörgum örgjörvum. 

Andvirði búnaðarins sé 96 milljónir en tjónið af þjófnaðinum öllu meira, 135 milljónir - þar er meðtalið tjónið af því að ekki hafi verið hægt að nota búnaðinn síðan. Búnaðurinn er allur ófundinn  og það þótt eigendurnir hafi heitið þeim sem gæti gefið upplýsingar um málið sex milljóna króna fundarlaunum í vor. Advania Data Centers hefur uppi 78 milljóna króna bótakröfu í málinu.  

Báðir Amsterdam-vinirnir ákærðir

Níu voru handteknir vegna málsins í upphafi og sjö eru ákærðir. Sindri Þór Stefánsson er ákærður fyrir að standa að baki öllum innbrotunum. Tveir bræður á þrítugsaldri eru ákærðir með honum, annar fyrir að skipuleggja með honum öll innbrotin og hinn fyrir að standa að baki tveimur þeirra.

Mynd með færslu
Hafþór Logi, til vinstri, og Sindri Þór, til hægri, ásamt þriðja manninum sem einnig er ákærður.

Málið tók óvænta stefnu í apríl þegar Sindri Þór lét sig hverfa úr opna fangelsinu að Sogni og stakk af til Svíþjóðar í sama flugi og forsætisráðherra. Hann náðist í Amsterdam fimm dögum síðar en athygli vakti að áður hafði hann setið fyrir á meðfylgjandi mynd með félögum sínum sem birtist á Instagram ásamt myllumerkinu #teamsindri. Tvímenningarnir sem eru með honum á myndinni eru báðir ákærðir fyrir hlutdeild í einu innbrotanna. Annar þeirra er Hafþór Logi Hlynsson, sem er margdæmdur fyrir fíkniefnasmygl og fleira.

Slökktu á þjófavarnarkerfinu

Á meðal ákærðra er líka fyrrverandi öryggisvörður hjá Öryggismiðstöðinni. Í ákærunni er hann sagður hafa látið hina hafa öryggisupplýsingar um gagnaver Advania og kóða sem notaður var til að slökkva á þjófavarnarkerfinu þar.

Þá er hann sagður hafa útvegað Sindra og bræðrunum tveimur fatnað merktan Öryggismiðstöðinni sem þeir hafi klæðst við innbrotið. Sjöundi maðurinn sem er ákærður er sagður hafa komið Hafþóri Loga og öðrum bræðranna í samband við öryggisvörðinn.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 11. september. Sindri Þór og nokkrir þeirra sem ákærðir eru með honum hafa sætt farbanni undanfarna mánuði.