Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnaver Etix formlega opnað á Blönduósi

21.05.2019 - 19:03
default
 Mynd: RÚV - Gunnlaugur Starri Gylfason
Nýtt 4000 fermetra gagnaver Etix á Blönduósi var formlega tekið í notkun í dag. Sveitarstjóri Blönduósbæjar segir afar mikils virði að fá slíka nýsköpun inn í samfélagið. Frekari uppbygging er fyrirhuguð á vegum Etix á Blönduósi.

Tæpt ár er liðið frá því tekin var fyrsta skóflustunga að gagnaverinu á Blönduósi. Þremur mánuðum síðar hófst starfsemi í fyrsta húsinu og nú fyllir tölvubúnaður gagnaversins 4000 fermetra byggingar. 

Norðanáttin nýtt til kælingar á flóknum búnaði

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Etix á Íslandi segir að þarna nýti þeir norðanáttina sem náttúruauðlind til að kæla öflugan tölvubúnað fyrir flókna útreikninga. „Megnið af þessu í dag eru fjárhagsmál. Það er verið að keyra millifærslur fyrir erlendar þjónustustofnanir.“ Í dag starfa fimmtán manns hjá Etix á Íslandi. Þar af eru tíu starfsmenn á Blönduósi, sem fyrst og fremst sinna tölvurekstri og almennu viðhaldi. Samtals er um 25.000 tölvuþjónar í gagnaverinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fulltrúar Etix, Blönduósbæjar og stjórnvalda klipptu á borðann

Telur afleidd störf jafn mörg og störfin í gagnaverinu

„Fyrir utan störfin á uppbyggingartímanum, sem hafa verið tæplega hundrað yfir sex mánuði, þá má reikna með að það verði á bilinu 10 til 15 störf sem verða hér föst í húsi,“ segir Valdimar Hermannsson, sveitarstjóri á Blönduósi. „Og svo annað eins í afleiddum störfum hér í samfélaginu. sem er nú bara dágott fyrir þetta samfélag.“

Stefna að frekari uppbyggingu á Blönduósi

Raforkuþörf gagnaversins er 34 megavött og möguleiki á að tvöfalda þá orku án breytinga. Þá er í skipulagi gert ráð fyrir allt að fimmföldu byggingamagni til viðbótar á þessu svæði. Og Björn segir ferkari uppbyggingu fyrirhugaða á Blönduósi. „Við stefnum á að vera með fjölbreyttari gagnageymslu til dæmis með þessu, nú erum við í rauninni eingöngu með þunga reikninga. Þannig að flóran á eftir að aukast hjá okkur.“

Margskonar jákvæð áhrif

Og sveitarstjórinn fagnar þessarri nýsköpun á svæði sem hafi átt undir högg að sækja. „Þannig að þetta hefur haft mjög góð áhrif á fasteignaverð, íbúðir eru farnar að byggjast, fók er að flytja í bæinn þannig að það er margt jákvætt við þetta. Þó svo að við lítum á þetta sem fyrsta áfanga,“ segir Valdimar.