Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gætu nýtt Orminn í ferðaþjónustu

18.02.2012 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Vinsældir myndbands af meintum Lagarfljótsormi eru hvatning til þess að nýta Orminn til að laða ferðamenn austur, segir markaðsmaður á Austurlandi. Hins vegar sé lítill áhugi á því að selja plastorma í söluskálum á Héraði.

Milljónir manna hafa virt fyrir sér myndband Hjartar Kjerúlfs bónda í Fljótsdal af einhverju fyrirbæri sem hlykkjast niður Lagarfljótið og gæti vel verið Ormurinn frægi. Nú sjá menn lag í að nýta orminn í markaðssetningu.

„Það verður reynt að fylgja þessu eftir með að nýta þessa útbreiðslu og þessi leitarorð sem hafa komið í gegnum þetta myndband,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, stjórnarformaður Markaðsstofu Austurlands - hann segir að nú sé kannski kominn tími til að gera meira úr Orminum. Það er hins vegar ekkert nýtt að Ormurinn sé umtalaður - og margir hafa bent á tækifæri sem honum fylgja - rétt eins og Skotar vekja athygli á Loch Ness-skrímslinu. Menn hafi hins vegar ekki verið viljugir til þess á Austurlandi, segir Skúli Björn. Ormurinn sé nýttur með í öðru en ekki sé verið að markaðssetja til dæmis skrímslaferðir á Héraði.

Skúli segir að Héraðsbúar beri á vissan hátt óttablanda virðingu fyrir Orminum - hugmyndir um að markaðssetja hann hafi ekki fallið í góðan jarðveg þegar þær komu fram fyrir tíu árum eða svo. „Ég held að þetta búi í undirmeðvitund okkar á Héraðinu. Við viljum ekki gera þetta að söluvöru þannig að við séum að selja hérna fullt af einhverjum plastormum, heldur nálgast þetta af meiri virðingu.“