Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gætu átt sekt eða fangelsisvist yfir höfði sér

28.05.2019 - 19:16
Skáru sporð af lifandi hákarli.
 Mynd: Fréttir
Mál skipverja sem skáru sporð af lifandi hákarli og hentu honum fyrir borð er komið á borð Matvælastofnunar. Dýralæknir dýravelferðar hjá MAST segir allt benda til þess að lög um meðferð dýra hafi verið margbrotin með verknaðinum. Skipverjarnir gætu átt yfir höfði sér sekt eða fangelsisvist. Lögfræðingur sem sérhæfir sig í dýravernd segir óvíst að málið sé á forræði MAST því ný lög nái ekki til villtra fiska.

Á myndbandi sem hefur farið sem eldur um sinu um samfélagsmiðla í dag má heyra skipverjana tvo hlæja að sporðlausum og blæðandi hákarlinum eftir að hafa skorið sporðinn af honum og hent honum lifandi fyrir borð. Þá má heyra annan þeirra hrópa: „Gangi þér vel að synda, ræfillinn þinn!“ Skipverjunum hefur nú verið sagt upp störfum en eigendur útgerðarinnar fordæmdu verknaðinn.

Segir ekki annað að sjá en að lög hafi verið brotin

Málið er nú komið á borð Matvælastofnunar, að sögn Þóru Jóhönnu Jónasdóttur, dýralæknis dýravelferðar hjá MAST, en stofnuninni hefur borist fjöldi ábendinga vegna myndbandsins í dag. Eftir að breytingar á lögum um velferð dýra tóku gildi 1. janúar 2014 hefur Matvælastofnun heimild til að beita stjórnvaldssektum, allt að einni milljón króna fyrir brot á lögunum. Þóra segir ekki annað að sjá en að verknaðurinn sé brot á lögum.

„Jafnframt getum við vísað málinu til lögreglu ef þess þarf. Bæði til rannsóknar og eins til að gerandi sæti refsiábyrgð svo sem fangelsisvist. Það er heimild í lögunum til þess þegar málið er komið á borð lögreglu eftir kæru frá matvælastofnun,“ segir Þóra. 

Óttast að skipverjarnir verði lausir allra mála

Árni Stefán Árnason, lögfræðingur, hefur sérhæft sig í málum dýraverndar. Hann segir myndbandið sýna hrottalegt dýraníð en segist þó ekki viss um að verknaðurinn falli undir lög um velferð dýra. „Ég hef ekki lagst yfir það hvort hákarlar falli undir þau lög. Þetta er svo nýskeð. En hvort sem er þá myndi ég telja að þetta sé refsivert á öðrum lagagrundvelli.“

Eftir breytingar taka lög um velferð dýra ekki til hefðbundinna veiða og föngunar á villtum fiski. Árni Stefán segist þar af leiðandi ekki viss um að þetta tiltekna mál sé á forræði MAST því stofnunin hafi eingöngu valdheimild samkvæmt lögum um meðferð dýra. Matvælastofnun geti aftur á móti vísað málinu áfram til lögreglu en Stefán segist ekki viss um að nokkuð verði aðhafst, það sé að hans dómi sá gangur sem hafður sé á málum sem þessum á Íslandi. Þá segist hann ekki vita til þess að dómur hafi fallið í málum villtra dýra hér á landi. Mögulegt sé því að skipverjarnir tveir verði lausir allra mála. 

„Ef engin lög ná yfir þetta þá er ekki hægt að refsa þeim. Þetta er erfitt mál því þegar lögin voru samin voru ákveðnar tegundir dýra undanskildar, þar með talinn allur villti fiskurinn. Þannig það er á gráu svæði lagalega séð hvort þetta sé refisvert eða ekki, “ segir Stefán Árni.

Ekki um „hefðbundnar veiðar eða föngun“ að ræða

Að mati Þóru Jóhönnu telst athæfið hvorki til hefðbundinna veiða né hefðbundinnar föngunar á villtum fiski. Þar af leiðandi bendi allt til þess að verknaðurinn brjóti lögin, því undanþágan nái einungis yfir föngun og veiðar. 

„Þetta er hvorki föngun né veiðar. Að mínu mati fellur þetta undir lögin en auðvitað skoða lögfræðingar okkar málið í þaula og heyra frá geranda hvort hann hafi sér einhverjar málsbætur. Hann hefur alltaf rými til að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun. Það er þannig sem stjórnsýslulögin virka og við fylgjum þeim.“

„Maður særir ekki dýr og sleppir því lausu vitandi það að það mun að mestum líkindum veslast upp og deyja í þjáningu,“ segir Þóra að lokum. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV