
Gætu annað eftirspurn eftir lifandi jólatrjám
Af ríflega 50 þúsund lifandi jólatrjám sem seld eru hér á landi ár hvert eru íslensk tré aðeins um 10 þúsund. Síðustu ár hefur verið rætt hvort auka eigi innlenda framleiðslu jólatrjáa og minnka þannig innflutning. En til þess þyrftu íslenskir ræktendur aukinn stuðning.
15 milljónir á ári til íslenskra framleiðenda
„Ég held að með 15 milljónum í nokkur ár þá gætum við komið af stað jólatrjáarækt þannig að við gætum, hvað eigum við að segja, uppfyllt eftirspurn á Íslandi fyrir jólatré,“ segir Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni. „Þannig að eftir tíu ár þá myndi ég telja það að greinin gæti orðið sjálfbær ef við stöndum vel að þessu.“ Og hann segir að landsmenn kaupi jólatré fyrir um 425 milljónir króna á ári og í þeim samanburði séu 150 milljónir á tíu árum ekki miklir peningar.
Hagstæðara að rækta jólatré en timburskóg
Ef skógareigandi stendur frammi fyrir þeim kostum annarsvegar, að framleiða jólatré og hinsvegar að framleiða timbur úr skóginum, er framleiðsla jólatrjáa talin talsvert hagstæðari. Brynjar segir mikilvægast að auka þekkingu við að rækta tegundir sem geti keppt við innfluttan normannsþin. Þá skipti ræktunarsvæði miklu máli og við gæðaframleiðslu þurfi öguð vinnubrögð. „Ég tel að þetta sé arðsamt ef það er vel að því staðið. En þetta krefst meiri þekkingar. Það þarf leiðbeiningar og áætlanagerð fyrir þá sem eru ekki með reynslu í að rækta jólatré.“