Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gæti þurft að sprengja bergfyllu í Ketubjörgum

23.05.2019 - 17:55
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Til greina kemur að sprengja fram risastóra bergfyllu sem klofnað hefur frá bjargbrún Ketubjarga á Skaga. Fylgst er náið með sprungu í björgunum sem gliðnar um tugi sentimertra á hverju ári. Ketubjörg eru fjölfarinn ferðamannastaður og mikil hætta er talin stafa af því ef mörg þúsund tonn af bergi hrynja þarna í sjó fram.

Það var snemma vors 2015 sem íbúar í nágrenni Ketubjarga tóku eftir sprungu sem tekin var að myndast þar á bjargbrúninni. Síðan þá hefur sprungan stækkað jafnt og þétt. Þarna er óstöðugt móberg og hafa í gegnum tíðina orðið miklar breytingar á landinu. Síðustu ár hafa stórar spildur fallið úr björgunum og þetta er alltaf að ágerast.

Móbergið í Ketubjörgum stöðugt á ferðinni 

Það sem fyrir fjórum árum var sakleysisleg sprunga er í dag orðin hyldjúp og margra metra breið gjá á bjargbrúninni. „Þetta er alltaf á ferðinni og það hafa farið stór stykki, bæði sunnan við þetta stykki sem hangir uppi þar sem gjárin er núna, og eins suður í Fálkabakka. Það er mjög stórt stykki farið framan úr honum,“ segir Ingólfur Sveinsson, bóndi í Lágmúla á Skaga. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Myndast hefur margra metra breið gjá á bjargbrúninni

„Nokkur þúsund tonn sem hanga þarna uppi“

Frá upphafi hefur verið ljóst að bergfyllan fer á endanum. Nú er þetta eiginlega orðinn frístandandi klettur sem mjókkar niður og getur hrunið hvenær sem er. Og þá er vissara að vera ekki nálægt, en Ketubjörg eru vinsæll ferðamannastaður og talið stórhættulegt að vera þarna ef bergið hrynur. „Því að þetta eru nokkur þúsund tonn sem hanga þarna uppi,“ segir Ingólfur. „Og ef þau falla þarna fram af, þá náttúrulega kemur nötur. Mér er nokkurveginn víst að falli þetta þá sést það á skjáftamæli sem er úti á Hrauni.“

Þurfi að meta vandlega hvort óhætt sé að sprengja

Lögreglan á Sauðárkróki hefur fylgst reglulega með þessari þróun og eitt af því sem rætt hefur verið er að sprengja bergfylluna í sjó fram. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn, segir að það þurfi að ákveða fyrr en síðar og þá í samráði við landeigendur og sveitarfélagið. Ingólfur telur að svo róttækar aðgerðir þurfi að meta vandlega því sprenging geti jafnvel opnað fleiri sprungur. „Það þarf bara náttúruleg að skoða þetta öðruvísi þannig, hvort maður sér í sprungur. Verði þetta stykki sprengt niður þá opnast þetta meira þarna á bakvið.“
„Þannig að það gæti kannski hleypt meiru af stað?“
Alveg tímælalaust,“ segir Ingólfur.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV