Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gæti þurft að rannsaka ráðherra

25.07.2014 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Nýr lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þarf hugsanlega að rannsaka meint lögbrot í innanríkisráðuneytinu, ákveði ríkissaksóknari að frekari rannsóknar sé þörf í lekamálinu. Hún gæti því þurft að stýra rannsókn á málum ráðherrans sem skipaði hana í embætti í gær.

Innanríkisráðherra skipaði Sigríði Björk Guðjónsdóttur nýjan lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu í gær. Sigríður Björk var skipuð án þess að staðan væri auglýst til umsóknar og var hún skipuð sama dag og núverandi lögreglustjóri, Stefán Eiríksson, sagði starfi sínu lausu.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur á síðustu mánuðum rannsakað meint brot innanríkisráðuneytisins gegn þagnarskyldu, þegar upplýsingum var lekið þaðan til nokkurra fjölmiðla um persónulega hagi hælisleitanda.

Rannsóknargögn þessa máls, sem kallað hefur verið lekamálið, eru nú komin inn á borð ríkissaksóknara. Í svari embættisins við fyrirspurn fréttastofu RÚV í dag kom fram að ríkissaksóknari sendir sakamál til frekari rannsóknar hjá lögreglu ef hann telur rannsókn ekki fullnægjandi eða ekki lokið.

Í fréttatilkynningu frá ríkissaksóknara fyrir mánuði kom fram að málastaða embættisins væri þung og því óvíst hvenær afgreiðslu málsins lyki. Sigríður Björk tekur við embætti þann 1. september. Það kemur því líklega í hennar hlut að rannsaka embættisfærslur innanríkisráðherra og undirmanna hennar fari saksóknari fram á frekari rannsókn.

Það vekur upp spurningar um hæfi og vanhæfi. Samkvæmt heimildum fréttastofu fóru lögfræðingar ráðuneytisins yfir málið og töldu að ráðherra væri ekki vanhæfur til að skipa í stöðuna. Þetta vekur ennfremur upp spurningu um hæfi Sigríðar Bjarkar til að fara með rannsókn málsins komi það til kasta hennar. Lögfróðir menn sem fréttastofa ræddi við í dag sögðu málið á gráu svæði og einn orðaði það svo að málið væri svolítið sérstakt. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra er í leyfi og gaf ekki kost á viðtali.