Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gæti tekið tíma að komast til vinnu

23.02.2020 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Fólk gæti þurft að taka sér tíma til að komast til vinnu í fyrramálið, segir Theodór Hervarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um horfur í fyrramálið. Myndarlegur úrkomubakki kemur yfir suðvestanvert landið í nótt. Það gæti snjóað mikið framan af nóttu og þá er óvíst að búið verði að moka alls staðar áður en fólk þarf að komast til vinnu.

„Það hefur gengið á með éljum í dag en það sem við erum að horfa fram á í spánni í kvöld og nótt er að það aukist aðeins ákefðin í þessu, þannig að þau verði tíðari,“ sagði Theodór í kvöldfréttum útvarps. „Jafnvel svo að í kringum miðnætti og eitthvað fram á nótt geti snjóað nokkuð látlaust á suðvesturhorninu. Það er nokkuð myndarlegur bakki að koma inn þá. Áhyggjuefnið er að þegar við vöknum til vinnu í fyrramálið geti færð verið erfið víða á suðvesturhorninu. Kannski erum við ekki komin á þann stað að vera búin að ryðja þannig að fólk verður að taka sér tíma til að komast til vinnu og gera ráðstafanir í þeim efnum.“

Hált er víða og á köflum lúmskt, sérstaklega þar sem snjór hefur fallið á og falið klaka. Þetta á til dæmis við sums staðar á höfuðborgarsvæðinu.