Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gæti leitt til íslensks stofns margæsa

14.06.2018 - 11:53
Mynd með færslu
Margæsin liggur á eggjum sínum. Mynd: Guðmundur A. Guðmundsson Mynd: Forseti.is
Á sunnudaginn fannst margæsahreiður með fjórum eggjum á Bessastaðanesi. Þetta er í fyrsta sinn, svo vitað sé, sem margæs verpir á Íslandi. Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir þetta geta þýtt að margæsin myndi íslenskan stofn, líkt og helsingjar gerðu á níunda áratugnum.

Margæsin er farfugl sem kemur frá Írlandi að ströndum Faxaflóa og sunnanverðs Breiðafjarðar að vori. Hún safnar hér matarforða og flýgur svo áfram í maíbyrjun til varpstöðva á heimskautaslóðum í Kanada. Nú hefur ein þeirra aftur á móti ákveðið að vera hér eftir, og gert sig heimakomna að Bessastöðum. Frá því er greint á vef forsetaembættisins. Guðmundur varar við því að fólk fari og reyni að berja margæsina augum, þar sem slíkt gæti fælt hana frá eggjunum. „Öll umgengni í návígi við hreiður er ekki góð og gæti jafnvel orðið til þess að hún vanrækti þau, ef það yrði straumur fólks á staðinn, þannig að það þarf nú að gæta þess og við viljum svona helst halda staðsetningunni leyndri, þannig að það sé ekki verið að trufla hana við varpið,“ segir Guðmundur. „Hún er fullorpin og kemur til með að liggja á eggjum í fjórar vikur og þá klekjast vonandi út ungar.“

En hvað þýðir það að margæs sé farin að verpa hér? „Það þarf nú ekki að þýða neitt, það er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að einstaka fuglar taki svona ákvörðun en þetta gæti leitt til íslensks stofns þess vegna,“ segir Guðmundur. „Það eru dæmi um það hjá helsingja, sem er náskyld tegund, að þeir hafi farið að stytta farleið sína.“

Helsinginn hafi myndað íslenskan stofn á seinni hluta síðustu aldar. „Það hófst svona stopult á Breiðafirði í kringum 1980 og er nú orðið verulegt á Suðausturlandi.“

Hægt er að heyra hljóðin sem margæsir gefa frá sér með því að smella á myndina hér fyrir neðan. 

Mynd: Wikimedia / Wikimedia
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV