Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gæsluþyrla flutti rusl úr fjörum Snæfellsness

17.10.2019 - 07:04
Mynd með færslu
Búðaós, þar sem Hraunhafnará rennur til sjávar í Búðafjöru. Mynd: Ævar Örn Jósepsson - RÚV
Þyrla Landhelgisgæslunnar fékk í gær það óvenjulega verkefni að flytja rusl, nánar tiltekið tvö tonn af ruslu úr fjörum friðlanda á sunnanverðu Snæfellsnesi. Gengið var í það í gær að hreinsa fjörurusl úr friðlandinu í Búðahrauni og úr Beruvík í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, allt frá fjöru að þjóðveginum.

Þar sem svæðið er erfitt yfirferðar var ruslinu safnað í hauga hér og þar og þyrlan síðan notuð til að flytja það upp á veginn, þaðan sem þjóðgarðsfólk mun sjá til þess að flytja það í endurvinnslu í Ólafsvík. Alls fór þyrlan átta ruslaferðir, segir á vef Umhverfisstofnunar, með ríflega tvö tonn af drasli.

Haft er eftir Jóni Björnssyni þjóðgarðsverði að verkefnið hafi gengið ljómandi vel og vill hann þakka Landhelgisgæslunni fyrir veitta aðstoð, en ekki síður heimafólki sem lagði hreinsunarátakinu lið. Þar nefnir hann sérstaklega Sigurð Vigfússson á Bjarnarfossi og hans fólk, sem átti frumkvæði að hreinsuninni á Búðarhrauni. Að sögn Jóns verður haldið áfram að hreinsa rusl úr fjörum þjóðgarðsins og nálægra friðlanda. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV