Gæludýra- og fiskafóður úr kjúklingafjöðrum

09.08.2019 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: jlastras - Wikimedia Commons
Hægt er að nýta kjúklingafjaðrir í fóður fyrir svín, loðdýr, gæludýr og fiska. Fjaðrirnar eru afar próteinríkar. Kjúklingafjaðrir eru vannýtt hliðarafurð í vinnslu á kjúklingi. Þær hafa hingað til verið urðaðar með tilheyrandi sótspori. Með því að nýta kjúklingafjaðrir í fóður verður framleiðsla þess umhverfisvænni þar sem ekki þarf þá að flytja inn, veiða eða rækta hráefni til fóðurgerðarinnar. Í þessu felist einnig verðmætasköpun.

Verkefnið er samstarfsverkefni Matís og Reykjagarðs.

Í tilkynningu á vef Matís segir að um og yfir 2000 tonn af kjúklingafjöðrum séu urðuð árlega hér á landi. Markmið landsáætlunar miði hins vegar að því að urðun lífræns úrgangs verði umtalsvert minni árið 2020. Nýting fjaðranna í fóður komi til móts við þessi markmið.

Rannsóknir sýni að hægt sé að skipta út allt að 30 prósentum af fiskimjöli út fyrir fjaðurmöl án þess að það hafi áhrif á vöxt eldfisks.   

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi