Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gæf hreindýrahjörð á Bakkafirði - myndband

17.05.2016 - 10:15
Mynd: Hreindýr á Bakkafirði / Járnbrá Ólafsdóttir
„Þau eru orðin ótrúlega róleg. Við getum keyrt framhjá þeim og þau hlaupa bara nokkra metra og stoppa. Svo þau eru ekki stygg,“ segir Járnbrá Ólafsdóttir á Bakkafirði. Hún varð vitni að því þegar hreindýrahjörð spásseraði um götur bæjarins um helgina og tók myndbandið sem má sjá í fréttinni.

Hreindýrin halda sig á Austur- og Suðausturlandi en eru farin að fikra sig inn á norðausturhorn landsins og hafa sést við Þórshöfn. Hún segir þetta ekki í fyrsta sinn sem hreindýr heimsæki Bakkfirðinga. „Ætli þetta sé ekki þriðji eða fjórði veturinn sem þau eru að koma svona niður í þorpið. Krökkunum finnst æðislegt að upplifa það að geta litið út um herbergisgluggann eða gluggann á skólastofunni og séð villt dýralíf.“

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV