Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gæðastýring ekki hafin yfir gagnrýni

21.06.2019 - 13:51
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Í yfirlýsingu Landsambands sauðfjárbænda vegna nýrrar skýrslu um gæðastýringu í sauðfjárrækt kemur fram að gæðastýringin sé ekki hafin yfir gagnrýni. Hins vegar sé það mat samtakanna að vel hafi tekist til þegar á heidina er litið. Landgræðsla hafi aukist undir forystu bænda, beitartími hafi verið styttur og beitarfriðun á viðkvæmum svæðum.

Samtökin eru með yfirlýsingunni að svara skýrslu sem Ólafur Arnalds prófessor við Landbúnaðarháskólann gerði. Hann gagnrýnir hvernig staðið er að gæðastýringu í sauðfjárrækt þegar kemur að landnýtingu.

„Það er náttúrlega þannig að svona verkefni eins og gæðastýring eru verkefni sem eru í sífelldri mótun og auðvitað ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur verkefni. Þetta verkefni hefur tekið miklum breytingum frá upphafi,“ sagði Guðfinna Harpa Árnadóttir formaður Samtaka sauðfjárbænda í Speglinum í gær.

Hún bendir á að gagnrýni Ólafs sé þríþætt. Gagnrýni sem beinist að stjórnsýslunni sem lúti að aðgengi og söfnun gagna. Það sé stjórnvalda að svara henni. Þá beinist gagnrýnin bæði að Matvælastofnun og Landgræðslunni. Bændur taki ekki undir hana því samskiptin við Landgræðsluna hafi verið mjög góð.

„Síðan er það kannski megingagnrýni skýrslunnar sem snýr að framkvæmd í landnýtingarþætti gæðastýringarinnar. Það má kannski taka undir hluta af því sem þar kemur fram og við eigum bara að nýta alla gagnrýni til að gera þetta betra,“ segir Guðfinna Harpa.

Allir fá umsóknir samþykktar

Ólafur Arnalds gagnrýnir að allir bændur fái vottun fyrir gæðastýringu. Stærstu hluti bænda standi sig vel. Hins vegar sé yfir 50 þúsund kindum beitt á viðkvæmt land.

„Nei, kannski er það ekki nógu gott en við höfum samt verið að vinna á þessum svæðum. Landnýtingarþáttur gæðastýringarinnar gerir ráð fyrir því að það séu viðbrögð á þeim svæðum þar sem vandamálin eru. Þá eru bændur að vinna í samstarfi við Landgræðsluna og eru að vinna að aðgerðum til að bæta þetta land,“ segir Guðfinna Harpa.

En hvað segir Guðfinna Harpa um þá staðreynd að allir bændur fá samþykktar umsóknir um gæðastýringu?

„Já, það fer kannski eftir því hvernig horft er á það. Út frá því sjónarmiði að gæðastýring sé tæki til að bæta búskaparhætti í sauðfjárrækt þá tel ég kannski að það sé eðlilegt að allir komist að í upphafi. Þá er í framhaldinu tekin út hvernig aðstæðum er háttað hjá hverjum og einum umsækjenda og hann fær þá frest til úrbóta eftir eðli þeirra aðhugasemda sem er verið að gera. Landbótaverkefni eru þá langtímaverkefni en verkefni sem snúa að aðbúnaði eru þá verkefni sem eru fljótleystari og þá fá menn styttri fresti en lengri fresti í landbótaverkefnunum. Mér finnst kannski ekkert óeðlilegt við það ferli ef bændur eru að sinna því að vinna að úrbótum, þá erum við með betri búskap með tilliti til þessara þátta á eftir,“ segir Guðfinna Harpa.