Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fyrstu sjónvarpsmyndirnar úr Laugardalshöll

Mynd: Laugardalshöll / Laugardalshöll

Fyrstu sjónvarpsmyndirnar úr Laugardalshöll

07.12.2015 - 10:24
Hálfrar aldar afmæli Laugardalshallarinnar var fagnað sl. föstudag, 4. desember. Fyrsti íþróttaleikurinn í höllinni fór fram á þeim degi árið 1965 þar sem handknattleiksmenn Reykjavíkurúrvalsins unnu verðskuldaðan sigur 23-20 á tékkneska liðinu Baník Karvina.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá viðtal sem RÚV tók á föstudag við Siggeir Guðmannsson, fyrsta framkvæmdastjóra Laugardalshallarinnar árið 1965. Í myndskeiðinu eru einnig sýndar fyrstu sjónvarpsmyndirnar frá íþróttakappleik í Laugardalshöll sem fram fór 2. apríl 1966. Þá vann Ísland sigur á Danmörku 23-20 í undankeppni HM. Danir fóru þó áfram með betri markatölu úr tveimur leikjum. Einnig má sjá myndir frá landsleik Íslands og Vestur Þýskalands sama ár og myndir úr körfuboltalandsleik.

Bygging hallarinnar tók sinn tíma

Laugardalshöllin var teiknuð af Gísla Halldórssyni og Skarphéðni Jóhannssyni arkitektum árið 1959 og reist af Reykjavíkurborg og Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Bygging Laugardalshallarinnar tók sinn tíma og margar hindranir voru í veginum þar til höllin var opnuð.

Fyrsta viðbygging við upprunalegu Laugardalshöllina var byggð austan megin hússins til að fjölga áhorfendastæðum vegna HM í handbolta sem fram fór 1995. Eftir mótið var viðbyggingunni breytt í lítinn æfingasal fyrir körfuknattleik. Nú hýsir þessi viðbygging ráðstefnusali og geymslur.

Frjálsíþróttahöllin rís

Árið 2005 var hafist handa við að reisa 9.500 m² fjölnota sal, til frjálsíþrótta- og sýningaaðstöðu auk ráðstefnuaðstöðu sem tengdist við Laugardalshöllina. Þessi nýi frjálsíþróttasalur er besta innanhúsaðstaða landsins en þar eru einnig haldnir stærri tónleikar og sýningar. Í Laugardalshöll er í dag að finna alls fimm salir. Höllin (A-salur), Frjálsíþróttahús (B-salur), salir 1-2-3-4-5-6, golf-, lyftingasal og danssal.

Framkvæmdastjórar Laugardalshallar

Sigurgeir Guðmannsson var framkvæmdastjóri ÍBR og fyrsti starfsmaður Laugardalshallarinnar en hann starfaði frá 1965-1969. Eftir honum tók við Höskuldur Goði Karlsson (1969-1971). Árin 1971-1997 var Gunnar Guðmannsson (Nunni) framkvæmdastjóri Hallarinnar. Við hans hlutverki tók Jónas Kristinsson og var hann framkvæmdastjóri til ársins 2006 þegar að Óli Öder núverandi framkvæmdastjóri tók við.

Aðdragandinn

Hugmynd að veglegu samkomuhúsi fyrir Reykvíkinga hafði oft verið rædd manna á milli áður en skriður komst á byggingu íþróttahallar í Laugardalnum. Bæjarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 1. nóvember 1956 tillögu um að byggt skyldi „sýninga - og íþróttahús“ í Reykjavík. Skipuð var bygginganefnd og boltinn fór af stað. Miklar væntingar voru gerðar vegna mannvirkisins og sagði Gísli Halldórsson, arkitekt, m.a. á ársþingi ÍBR í mars 1959: „Með byggingu þessa húss í Laugardalnum verður mynduð miðstöð alls íþróttalífs í höfuðstaðnum og vonandi verða nú ekki mörg ár þar til því verki verði lokið, þar sem vonir standa til að hafist verði handa nú í sumar. En þegar því verki er lokið hefur myndast aðstaða fyrir allar íþróttir, jafnt úti sem inni. Þarna rætist draumur Sigurðar málara. Háborg íslenskrar æsku er að rísa af grunni í Laugardalnum.“

Framkvæmdir hefjast og stöðvast

Þann 29. ágúst 1959 hófust framkvæmdir við Laugardalshöllina. Framkvæmdir lögðust að mestu niður eftir að búið var að grafa fyrir grunninum vegna fjárskorts. Bygging Laugardalshallar var síðan boðin út vorið 1961. Að undangengnu útboði var samið við Almenna byggingarfélagið um verkið. Hafist var handa í ágúst 1961. Verkföll hjá ýmsum stéttarfélögum settu strik í reikninginn við framkvæmdirnar og þak Laugardalshallarinnar var m.a. ekki steypt fyrr en haustið 1963. Verkið tafðist einnig vegna viðræðna Reykjavíkurborgar við Sýningarsamtökin sem áttu hlut í húsinu - og var ekkert framkvæmt á þeim tíma eða í tvö ár. Haustið 1964 var farið að hilla undir að húsið yrði nothæft fyrir íþróttaleiki. Kostnaðurinn var þá kominn verulega fram úr áætlun og enn vantaði talsvert til að klára verkefnið.

Handboltamenn lögðu gólfið

Bygging Laugardalshallar var mikið þrekvirki á sínum tíma og margir lögðu hönd á plóginn. Íþróttafólk Reykjavíkur og nágrannasveitafélaga hljóp undir bagga við lokafráganginn og var unnið jafnt daga sem nætur síðustu vikurnar fyrir opnun hússins. Erfiðlega gekk að fá trésmiði til þess að leggja gólfið og gerðu þá nokkrir trésmiðir innan raða handknattleiksmanna tilboð í verkið og var unnu sleitulaust við það haustið 1965. Síðustu dagana var hið íslenska verklag í hávegum haft. Á miðvikudagskvöld og fimmtudagsnótt var salargólfið lakkað, handknattleiksvöllur merktur aðfaranótt laugardags, mörk sett upp um morguninn og leikurinn við Tékka hófst síðdegis sama dag.

Reykjavík stærri með tilkomu Laugardalshallar

Í Morgunblaðinu var sagt frá fyrsta viðburðinum í Laugardalshöll með eftirfarandi hætti: „Fjögur til fimm þúsund manns sem sáu tvo fyrstu kappleikina í nýju íþróttahöllinni í Laugardal og sannfærðust um, hver bylting hefur orðið í íþróttalífi hér við tilkomu hallarinnar. Að koma inn í höllina og sjá leiki þar er sem að koma inn í annan heim frá því sem verið hefur á kappleikjum hér. Fólkið naut fagurrar húsagerðarlistar og þægilegrar innréttingar salarins og víst mun flestum hafa farið svo að þykja höllin helmingi stærri og tignarlegri er inn var komið, en utan frá varð séð. Það er ekki ofsögum sagt að langþráður draumur hafi ræst og að Reykvíkingum finnist að bær þeirra sé meiri og stærri eftir tilkomu þessarar hallar en áður.“

Jónas B. Jónsson form. byggingarnefndar hússins ávarpaði um 1800 gesti við opnun Hallarinnar. Hann baðst velvirðingar á að boðið væri til keppni í húsinu þó að það væri ekki alveg fullbyggt en vonir stæðu til að framkvæmdum lyki fyrir næsta haust. Hann lét í ljósi vonir um að húsið yrði lyftistöng atvinnu-, íþrótta- og félagslífi og bað borgarstjóra að opna íþrótta- og sýningarhöllina í Reykjavík.

Geir Hallgrímssonar, borgarstjóri, sagði við þetta tækifæri að hann óskaði þess að í framtíðinni yrði húsið lyftistöng íþrótta fyrir æsku Reykjavíkur og raunar landsins alls. Í máli Geirs kom einnig fram að Höllin var frá upphafi ætluð til sýningahalds auk íþróttastarfsemi, en Sýningarsamtök atvinnuveganna áttu rúmlega 40% hlut í húsinu í upphafi.

Gestir hallarinnar 8 milljónir

Til gamans hefur verið lauslega áætlað að á þeim 50 árum sem liðin eru séu gestir Laugardalshallar (iðkendur og áhorfendur) orðnir um 8 milljónir. Gríðarlega margir stórviðburðir hafa farið fram í Laugardalshöllinni, í íþróttum, listum - og menningu á síðustu 50 árum. Auk þess oft verið haldnar stórar ráðstefnur, vöru –, heimilis– og atvinnuvegasýningar af ýmsu tagi. Þar má nefna ráðherrafundur NATO, Reykjavik Arts Festival, CCP Fan Fest, Ferðasýning Icelandair, Golf á Íslandi, sjávarútvegssýningar, Odair Art Fest , landsfundir stjórnamálaflokka, Sumarhúsið og garðurinn, Verk og vit, Tækni og Tölvur.

Fischer og Spassky hápunkturinn

Skákeinvígi Bobby Fischer og Boris Spassky um heimsmeistaratitilinn árið 1972 er án efa einn sá stærsti viðburðurinn. Mikið var einnig lagt í heimsmeistarakeppni í handknattleik karla árið 1995 en þá var m.a. byggt við Laugardalshöllina til þess að koma að fleiri áhorfendum. Stórhljómsveitin Led Zeppelin hélt eftirminnilega tónleika árið 1970 sem markaði upphafið að komu margra þekktra listamanna í höllina. Þar má nefna:

A-ha Bjork, Blow Monkeys, Birgit Nilson, Björgvin Haldórsson, Boris Christoff, Blur, Bubbi Morteins, Bob Dylan, Benny Goodman, Boney M, Buena Vista Social Club, Cleo Laine, Cesaria Evora, Coldplay, David Bowie, Dumbliners, Deep Purple, Diana Krall, Eagles, Europe, Foo Fighters, HAM, Human League, Henry Fox, Iceland Airwaves Music Festival, Nýdönsk, Incubus, Iron Maiden, Jethro Tull, Jose Carreras, Josh Groban, Katie Melua, Korn, Kris Kristofferson, Led Zeppelin, Leonard Cohen, Lou Reed, Meat Loaf, Miriam Makeba, Madnes, Muse, Nick Cave, Nigel Kennedy, Norah Jones, Pink, Pavarotti, Placebo, Prodigy, Pulp, Rammstein, Reykjavik Arts Festival, Richard Clyderman, Robbie Williams, Straqnglesr, Sting, Sugarcubes, Sigurrós, Simply Red, Stuðmenn, Sykurmolarnir, The Christians, The Icelandic Symphonic Orchestra, Toto, The Blow Monkeys, The Christians, Travis, World Choir, Madness, Kings of Leon, Jessie James, Fine Young Cannibals, Loyd Cole, Slash, Neil Diamond, Yehudi Menunhin, Vladimar Ashkenazy, Writing on the Wall, 50 Cent.