Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fyrsti samkynhneigði djákninn

03.11.2015 - 21:26
Hrafnhildur Eyþórsdóttir, djákni, fyrsti opinberlega samkynhneigði þjónn kirkjunnar.
 Mynd: ruv
Hrafnhildur Eyþórsdóttir er fyrsti þjónn kirkjunnar sem er opinberlega samkynhneigð þegar hún vígist til embættis. Hún telur fordóma gegn samkynhneigð vera meiri grýlu en alvöru vandamál innan kirkjunnar.

Hrafnhildur er hjúkrunarfræðingur og starfar á gjörgæsludeild Landspítalans. Hún tók eftir því hvað hlutverk presta og djákna á spítalanum voru mikilvæg og við það kviknaði áhugi hennar á störfum þeirra. Hún skráði sig í guðfræði og lærði til djákna, var vígð til embættis í september og formlega sett í starf djákna í Laugarneskirkju á sunnudaginn. Hrafnhildur er fyrsta manneskjan sem vitað er að er samkynhneigð þegar hún vígist til embættis í kirkjunni.

Hrafnhildur segir að hún geti ekki sagt til um það hvort hún sé fyrsti samkynhneigði þjónn kirkjunnar. 

 „Opinberlega skilst mér að það hafi í rauninni enginn áður verið vígður sem vitað var að væri í sambúð með einstaklingi af sama kyni. En ég held að ég sé ekki fyrsti vígði þjónninn sem er samkynhneigður en ég er það kannski svona út á við.“

Hrafnhildur segir að fólk hafi haldið að kirkjan væri á móti samkynhneigð.

„Auðvitað kannski var hún það til að byrja með. Þetta var kannski erfitt fyrir fólk að ætla sér að starfa innan kirkjunnar en átta sig á því að það væri samkynhneigt en ég held að það hafi verið meira svona grýla en að það hafi nokkurntíma verið mikið vandamál.“

Hrafnhildur kynntist Stefaníu Steinsdóttur, konu sinni, í guðfræðideildinni. Stefanía er á fjórða ári í guðfræði og stefnir á embættispróf. Hún gæti orðið fyrsti opinberlega samkynhneigði presturinn.

Mjög margir starfa innan kirkjunnar.

„Ef maður horfir á svona tölurnar þá ættu að vera miklu fleiri samkynhneigðir innan kirkjunnar en eru. En kannski hefur fólk veigrað sér við að fara í þetta nám og veigrað sér við að fara þessa leið út af hræðslunni við að vera útskúfað eða fá ekki starf eða eitthvað svoleiðis.“

Á kirkjuþingi í liðinni viku var ályktað að prestum væri ekki heimilt að synja tveimur einstaklingum af sama kyni um hjónavígslu.

„Það er allur vafi farinn af þessu máli eftir bara núna kirkjuþingið síðasta.“