„Okkur fannst sagan af Oki vera mikilvæg fyrir Ísland, fyrsti af þessum rúmlega 400 fallegu jöklum, sem er hættur að hreyfast. En þetta er líka mikilvæg saga fyrir heiminn því með henni getum við áttað okkur á raunveruleika loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra á náttúruna. Við vildum gera þessa mynd til að draga athyglina að þessu,” segir Dominic.
Cymene bendir á að myndin hafi tvíbentan titil. Öðrum þræði fjallar myndin um að Okjökull sé ekki lengur jökull, ekki lengur Ok á sama hátt og hann var. En á sama tíma vilja þau benda á að bráðnun jökulsins sé ekki í lagi. Undirtitillinn er svo lítil mynd um lítinn jökul á heimsenda.
Lítill jökull sem segir stóra sögu
„Ok var alltaf lítill og aldrei fallegasti, fjölfarnasti eða þekktasti jökull landsins, hann er ekki fyrsti staðurinn sem ferðamenn heimsækja þegar þeir ákveða að fara í jöklaferð. Þetta er lítill jökull en segir samt margt um loftslagsbreytingar,” segir Cymene.
Hluti af því sem þau vildu gera var að færa mannfólk og jöklana á svipaðan stærðar- og tímaskala. Því þó margar heimildamyndir sem fjalla um loftslagsbreytingar, sérstaklega þær sem fjalla um bráðnandi jökla eða heimskautaísbreiður, séu vissulega stórfenglegar, þar sem við sjáum ótrúlega magnaðar íshellur brotna með látum og steypast í sjóinn þá lítur fólk út eins og maurar í samanburði.
„Það gerir það oft að verkum að manni finnst maður ekkert geta gert eða haft áhrif. Það sem við vildum gera, var að ná þessu niður á skala sem er skiljanlegur fyrir manninnn.”
Ein leið til að gera það var að leyfa Oki, fjallinu sjálfu, að tala um þá upplifun að glata jöklinum – en það er Jón Gnarr sem ljær fjallinu rödd.
„Þó þetta sé heimildamynd þá eru líka ímyndaðir þættir: Fjallið bregst við þegar manneskjurnar segja frá sinni upplifun. Okkur fannst skemmtilegt að fjallið upplifði að það hefði verið svolítið hunsað af mannfólkinu, jú, það kemur vissulega fyrir í Íslendingasögunum, en bara einu sinni og þá ríður einhver gaur fram hjá því á hesti – það hefur mjög lítið hlutverk. Þannig að fjallið er svolítið pirrað, er með svolitla stæla. En það er líka að sætta sig við breytingarnar sem það finnur, en fjallið upplifir þetta allt á tímaskala jarðsögulegra breytinga en ekki mannlegum tímaskala,” segir Dominic.
Hlegið í gegnum loftslagsbreytingar
Hann segir að á mismunandi tímum og stöðum hafi manneskjur gefið náttúrufyrirbærum eins og fjöllum persónuleika, þekkingu, virkni og hlutverk í heiminum sem er ekki bara að vera líflaus náttúra sem við getum notað að vild og því hafi verið áhugavert að manngera fjallið.
„Okkur fannst líka skemmtilegt að fá grínista til að leika þetta hlutverk því margar heimildamyndir um loftslagsbreytingar bjóða upp á mjög þröngt tilfinningalegt svið, þær vekja upp ótta, reiði eða sorg: „Guð minn góður, hvað eigum við að gera? Þetta er svo mikil hörmung sem við erum að upplifa!” Við teljum að ef við náum ekki að breikka út þetta svið tilfinningalegra viðbragða, til dæmis með því að hlæja með loftslagsbreytingum – ekki að þeim – þá skiljum við aldrei hversu raunveruleg þróunin er. Jú, þetta er auðvitað sorglegt, en fólk upplifir ennþá líka hamingju og líf,” segir Dominic.
Not Ok verður frumsýnd klukkan 5 á föstudag, og það er ókeypis inn. Á laugardag verður af-jöklaferð, þar sem jöklafræðingur og mannfræðingarnir ganga með fólki upp á jökulinn sem var. En í framtíðinni ætla þau sér einnig að reyna að setja upp varanlegan minnisvarða um Okjökul.