Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrsta tilfelli COVID-19 greint á Íslandi

28.02.2020 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið færður í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir nýrri kórónaveiru (COVID-19). Maðurinn er ekki alvarlega veikur en sýnir dæmigerð einkenni COVID-19 sjúkdóms (hósti, hiti og beinverkir).

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var maðurinn í hópi með átta öðrum Íslendingum, þar af eru sex sem búsettir eru hér á landi.  Einhverjir úr þeim hópi sem eru hér á landi eru komnir í heimasóttkví.  Fyrr í dag greindi sóttvarnarlæknir frá því að 65 sýni verið rannsökuð af sýkla-og veirufræðideild Landspítalans. Þau reyndust öll neikvæð. 

„Í ljósi þessa mun ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni virkja hættustig almannavarna. Er þetta gert bæði vegna þess að ekkert lát er á hópsýkingu af völdum veirunnar ytra, þá sérstaklega í Evrópu, og að fyrsta tilfellið hefur nú verið staðfest hér á landi,“ segir í tilkynningu frá Landlæknisembættiinu. 

 Sýnataka og greining á veiru- og sýklafræðideild Landspítali staðfesti laust eftir kl. 13:00 í dag að maðurinn væri smitaður af COVID-19 kórónaveiru og er þetta fyrsta staðfesta tilfellið hér á landi.

Maðurinn var staddur á Norður-Ítalíu utan skilgreinds hættusvæðis fyrir veirurna. „Unnið er að rakningu smitleiða en markmið þeirra vinnu er að varpa ljósi hverjir gætu verið útsettir vegna þessa staðfesta smits.“

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir boða til blaðamannafundar í dag í samhæfingarmiðstöð almannavarna að Skógarhlíð 14, klukkan 16:00. Fundurinn verður sýndur beint á ruv.is, útvarpað verður frá honum á Rás 2 og hann sýndur á RÚV 2.

Ferðamenn sem eru nú þegar á skilgreindum áhættusvæðum og þeir sem hafa nýlega komið þaðan eru beðnir um að huga vel að persónulegu hreinlæti og sýkingavörnum. Þær fela meðal annars í sér að þvo hendur oft og vel, hafa klút fyrir andlitinu við hnerra og hósta í olnbogabót og nota handspritt. Almenningur getur með auðveldum hætti dregið úr sýkingarhættu með því að gæta vel að persónulega hreinlæti. Handþvottur og almennt hreinlæti í kringum augu, nef og munn og það að forðast að heilsa með handabandi hefur lykilþýðingu við að forðast smit og fækka smitleiðum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV