Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrsta skóflustungan tekin í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Framkvæmdasýsla ríkisins
Uppbygging sextíu rýma hjúkrunarheimilis í Árborg, sem ætlað er íbúum sveitarfélaga á Suðurlandi, hófst í dag. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, tóku fyrstu skóflustunguna á öðrum tímanum í dag. Áætlað er að byggingaframkvæmdir hefjist af fullum krafti í desember. Stefnt er á að fyrstu íbúarnir flytji inn um haustið 2021.

Í tilkynningu frá Framkvæmdasýslu ríkisins segir að ætlunin sé að gera íbúum kleift að sinna sem flestum þáttum daglegs lífs þrátt fyrir ýmsa aldurstengda kvilla. 

Útlit byggingarinnar gæti þótt óvenjulegt

Bygging heimilisins, sem mun standa við hlið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við bakka Ölfusár, hefur staðið til frá árinu 2015. Áætlaður kostnaður við byggingu hússins er 2,9 milljarðar króna. Verktakafyrirtækið Eykt  bauð best í verkið.

Urban arkitektar og LOOP architects hönnuðu bygginguna, sem verður rúmir fjögur þúsund fermetrar. Í tilkynningunni segir að byggingin kunni að þykja óvenjuleg útlits. „Hún verður hringlaga, á tveimur hæðum, með stórum og skjólgóðum garði í miðjunni. Hvert hjúkrunarrými mun hafa einkasvalir eða garðskika sem liggja ýmist inn í garðinn eða út á við,“ segir þar.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Framkvæmdasýsla ríkisins
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Framkvæmdasýsla ríkisins