Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrsta skáldsaga ársins

Mynd: Forlagið / Forlagið

Fyrsta skáldsaga ársins

14.01.2020 - 10:41

Höfundar

Fyrsta skáldsaga ársins 2020 er jafnframt fyrsta skáldsaga höfundarins Guðrúnar Ingu Ragnarsdóttur. Sagan heitir Plan B og fjallar um ómöguleika þess að skrifa skáldsögu og hvernig venjulegt líf verður svo á endanum að óvenjulegri skáldsögu.

Bráðfyndin og snjöll samtímasaga, stendur utan á skáldsögunni Plan B eftir Guðrúnu Ingu Ragnarsdóttur. Sagan segir frá Gyðu sem í upphafi frásagnarinnar flýgur til Kaupmannahafnar þar sem hún ætlar að gera úrslitatilraun til þess að ljúka við skáldsögu sem hún lengi hefur haft smíðum. Sagan á að byggjast á persónum sem hún á sínum tíma kynntist í starfi sínu í heimaþjónustu þegar hún, fyrir allmörgum árum, bjó í Kaupmannahöfn. Sagan á þó alls ekki að fjalla um heimaþjónustu heldur skulu leiðir persónanna liggja saman í allt öðrum aðstæðum á Íslandi. Gyða er reyndur höfundur, hefur  nú þegar skrifað allnokkrar skáldsögur, smásagnasöfn og fleira en ævinlega verið hafnað af útgefendum. 

Nú skal það takast að bók eftir hana verði gefin út og ef ekkert gengur með fyrirhuguðu skáldsöguna þá er hún með „plan B“ því í staðinn fyrir að skrifa alls ekki neitt skrifar hún einfaldlega um það sem á daga hennar drífur á meðan hún bíður eftir því að ritstíflan bresti og hin eiginlega skáldsaga taki að fossa fram á tölvuskjáinn.

Þetta er einhvers konar metafiksjón, sjálfsaga, eins og þær sögur eru kallaðar sem fjalla með einhverjum hætti um tilurð sína eins og Plan B óneitanlega gerir. Guðrún Inga segir þó að það hafi ekki verið tilgangurinn. „Málið er að við Gyða eigum ýmislegt sameiginlegt. Ég vann á sínum tíma við heimaþjónustu aldraðra í Kaupmannahöfn og kynntist þar mjög skrautlegum persónum sem ég hafði alltaf hugsað mér að skrifa um og gerði nokkrar atlögur að því.“ Eins og sögupersónan Gyða einmitt líka hefur gert án árangurs og hangir þess vegna í „plani B“, sem er einhvers konar dagbók um leið og snúa má upp á þá frásögn og stýra í ýmsar áttir. 

„Það eru miklar pælingar þarna með skáldskapinn og um hana,“ segir Guðrún Inga og viðurkennir að hafa sjálf að nokkru leyti átt í sama basli og sögupersóna hennar Gyða með koma þeim persónum sem hana langaði að skrifa um í sögu og á blað. Það lá því beint við að nota þessa frásagnaraðferð og  þar með segist Guðrún Inga hafa hitt á rétta tóninn og bætir við að Gyða sé alls ekki hún sjálf, Guðrún Inga, þótt þær eigi þessa skáldsögu sameiginlega.

Eins og oft vill verða með sögur sem skrifaðar eru sem einhvers konar dagbók er hér mikið flæði, það er að mörgu að hyggja og þótt ýmislegt rati inn í söguna á einhverju stigi er oft líka síðar tekin sú afstaða að viðkomandi atvik eigi ekki heima í skáldsögu og færðar ástæður fyrir því. 

Þótt dagarnir í Kaupmannahöfn líði við það að hitta fólk, fara á kaffihús og berjast við söguna þá gerist líka ýmislegt. „Þessi frásagnaraðferð býður upp á það að leika sér með form og framvindu og jafnvel líka að leika aðeins á lesandann, fara með hann í óvæntar áttir,“ segir Guðrún Inga sem hefur skrifað sögu um mjög venjulegt líf þar sem fólk er hvorki átakanlega óhamingjusamt né  á fljúgandi ferð til frægðar.

„Þessi bók er bara eins og lífið er. Það er ekki hægt að stjórna því neitt.“

Guðrún Inga Ragnarsdóttir lauk meistaranámi í ritlist árið 2014 með smásagnasafninu Sjóntruflanir. Það sama ár fékk hún svo nýrækarstyrk íslenskrar bókmenntamiðstöðvar til að vinna að útgáfu skáldsögunnar Plan B sem nú er sem sagt komin út. Guðrún Inga  var ein sjö ungra skáldkvenna sem stóðu að sameiginlegri ljóðabók, Ég erfði dimman skóg og kom út árið 2015. 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Mæður og dætur, sekt og ábyrgð í glæpasögum Evu Bjargar

Bókmenntir

Las bara smásögur í hálft annað ár

Bókmenntir

Nýræktarstyrkir afhentir

Bókmenntir

Smásögur eftir 15 höfunda á Tunglkvöldi