
Fyrsta handtakan vegna andláts í tíðakofa
Parwati Budha Rawat var 21 árs gömul þegar hún fannst látin í kofanum á mánudagsmorgun. Hún hafði kveikt eld í gluggalausum kofanum til þess að halda á sér hita. Kofarnir tilheyra fornri hefð í Nepal. Konur hafa dvalið þar á meðan þær hafa á klæðum. Hefðin hefur hins vegar verið bönnuð með lögum frá árinu 2005, en víða í dreifbýli og fátækari svæðum landsins tíðkast kofarnir enn.
Mágur Rawat var handtekinn í tengslum við lát hennar. Lögreglan rannsakar nú hvort hún hafi verið þvinguð til þess að sofa í kofanum á meðan hún var á blæðingum. Að sögn Guardian er eiginmaður hennar í Indlandi þar sem hann vinnur.
Þrátt fyrir bann frá árinu 2005 hefur fjöldi kvenna látið lífið í tíðakofum síðustu ár. Í heimahéraði Rawat, Sudurpashchim Pradesh, hafa fjórtán stúlkur látið lífið í Accham sýslu síðastliðinn áratug og ein kona og tveir drengir í bænum Bajura.
Mágur Rawat er í 25 daga gæsluvarðhaldi á meðan andlát hennar er rannsakað. Hann á yfir höfði sér allt að þriggja mánaða fangelsi og þrjú þúsund rúpía sekt, jafnvirði tæpra þrjú þúsund króna, verði hann fundinn sekur.