Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrsta handtakan vegna andláts í tíðakofa

07.12.2019 - 08:08
epa07308061 (FILE) - Naru Saud, aged 21, sits in a 'Chaupadi' shed with her two-year-old son in Biraltoli village in Acham district, Nepal, 19 September 2017 (issued 22 January 2019). 'Chaupadi Pratha' is an ancient social tradition in Nepal that banishes girls and women from their home to makeshift sheds and huts during their menstruation. Nepal's local government called for dismantling of Chhau huts after a woman and her two sons suffocated, on 09 January 2019, while she was in one of the the huts in Bajura district, Nepal.  EPA-EFE/NARENDRA SHRESTHA
Ung kona fyrir framan sams konar tíðakofa og kona lést í á mánudag. Mynd: EPA
Karlmaður var handtekinn í Nepal eftir að ung kona lét lífið í svokölluðum tíðakofa nærri heimili sínu. Þetta er í fyrsta sinn sem yfirvöld í Nepal handtaka einhvern vegna dauðfalls í tíðakofa.

Parwati Budha Rawat var 21 árs gömul þegar hún fannst látin í kofanum á mánudagsmorgun. Hún hafði kveikt eld í gluggalausum kofanum til þess að halda á sér hita. Kofarnir tilheyra fornri hefð í Nepal. Konur hafa dvalið þar á meðan þær hafa á klæðum. Hefðin hefur hins vegar verið bönnuð með lögum frá árinu 2005, en víða í dreifbýli og fátækari svæðum landsins tíðkast kofarnir enn.

Mágur Rawat var handtekinn í tengslum við lát hennar. Lögreglan rannsakar nú hvort hún hafi verið þvinguð til þess að sofa í kofanum á meðan hún var á blæðingum. Að sögn Guardian er eiginmaður hennar í Indlandi þar sem hann vinnur. 

Þrátt fyrir bann frá árinu 2005 hefur fjöldi kvenna látið lífið í tíðakofum síðustu ár. Í heimahéraði Rawat, Sudurpashchim Pradesh, hafa fjórtán stúlkur látið lífið í Accham sýslu síðastliðinn áratug og ein kona og tveir drengir í bænum Bajura.

Mágur Rawat er í 25 daga gæsluvarðhaldi á meðan andlát hennar er rannsakað. Hann á yfir höfði sér allt að þriggja mánaða fangelsi og þrjú þúsund rúpía sekt, jafnvirði tæpra þrjú þúsund króna, verði hann fundinn sekur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir