Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fyrsta ferð nýs WOW air tefst

25.09.2019 - 07:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrsta flugferð endurreists WOW air verður ekki fyrr en um miðjan næsta mánuð en ekki í byrjun október eins og stefnt hafði verið að. Veflén hins fallna félags hafa ekki fengist afhent og það tefur endurreisnina.

ViðskiptaMogginn greinir frá þessu í dag og hefur eftir heimildarmönnum sínum að undirbúningur í herbúðum nýs WOW bæði á Íslandi og Bandaríkjunum gangi vel. Það að lénin wow.is og wowair.com hafi ekki fengist afhent er ekki sagt eiga eftir að koma í veg fyrir að hægt sé hefja miðasölu.

Ferlið við endurreisnina gengur þó hægar en vonast var til. Það er Michelle Ballarin, stjórnarformaður bandaríska félagsins US Aerospace Associates, sem stendur að endurreisninni. Hún var stödd hér á landi í byrjun september og kynnti áform sín með eignir hins fallna WOW. Hún hefur fest kaup á flugtengdum eignum úr þrotabúi WOW air.

Greiðir 50 milljónir fyrir eignirnar

Greint hefur verið frá því að kaupverð eignanna sé 50 milljónir króna. Meðal þess sem Ballarin hefur fest kaup á eru búningar og tölvubúnaður og ýmisslegt tengt markaðssetningu flugfélagsins. Ballarin vildi sjálf ekki gefa upp hvað greitt sé fyrir eignirnar. ViðskiptaMogginn segir að treglega hafi gengið að fá eignirnar afhentar í nothæfu ástandi.

Búið er að greiða helming kaupverðs fyrir eignir úr þrotabúi WOW air og hinn helmingurinn verður greiddur við afhendingu, sagði lögmaður Ballarin í samtali við fréttastofu fyrr í mánuðinum.

Flugrekstrarleyfi WOW 2, eins og Ballarin kýs að kalla endurreista félagið, verður bandarískt og í eigu félaga sem Ballarin á. Þegar starfsemi flugfélagsins verður komin í gang á svo að sækja um íslenskt flugrekstrarleyfi.

Margt er enn á huldu um hvernig starfseminni verður háttað. Ballarin hefur sagst vilja ráða til sín íslenskt starfsfólk en ætlar að upplýsa um það síðar hvort starfsfólkið verði á íslenskum kjarasamningum.