Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrsta COVID-19 smitið á Húsavík

27.03.2020 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Fyrsta COVID-19 smitið hefur verið staðfest á Húsavík. Þetta kemur fram í pistli sveitarstjóra Norðurþings. Þá segir að talið sé að viðkomandi hafi smitast á hóteli í Mývatnssveit þaðan sem fleiri smit hafa verið rakin á sama tíma. Sveitarstjóri segir að Húsvíkingurinn sem hafi smitast hafi verið í samskiptum við fáa eftir komuna heim og því þurfi ekki margir að vera í sóttkví.

Smitrakning hafi farið fram í gær og á meðan hafi verið ákveðið að loka einni deild á leikskólanum Grænuvöllum. Það hafi svo fengist staðfest að ekki þurfi að koma til frekari lokana. Leikskólinn var því opnaður að nýju í morgun, kemur enn fremur fram í pistli Kristjáns Þórs Magnússonar, sveitarstjóra Norðurþings.

Fram kom í fréttum RÚV fyrir fjórum dögum að 20 af 24 manna skíðahópur sem dvaldi í Mývatnssveit í þar síðustu viku hafi reynst smitaður af kórónuveirunni. Hópurinn dvaldi á Icelandair-hótelinu. Á vef Skútustaðahrepps kemur fram að fimm smit hafi verið staðfest í hreppnum. Allir hinna smituðu eru starfsmenn hótelsins. Þá eru allir hótelstarfsmennirnir í einangrun. Ástralskur ferðamaður sem lést á Húsavík dvaldi á öðru hóteli í Mývatnssveit, Fosshóteli.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV