Fyrsta andlátið af völdum Wuhan-kórónaveiru utan Kína

02.02.2020 - 06:30
epa08180505 A sign alerts customers that surgical masks are out of stocks at a medical supply store in Manila, Philippines, 31 January 2020. The Philippines reported its first case of coronavirus after a woman from Wuhan, China, arrived in the country via Hong Kong on 21 January 2020. The virus originated in the Chinese city of Wuhan and has so far killed at least 213 people, infecting over 8,000 others, mostly in China.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Karlmaður í Filippseyjum lést af völdum kórónaveirunnar sem kennd er við kínversku borgina Wuhan í gær. Hann er fyrsti einstaklingurinn sem lætur lífið af völdum hennar utan Kína. Maðurinn er sjálfur frá Wuhan í Kína, og smitaðist áður en hann kom til Filippseyja.

Rabindra Abeyasinghe, fulltrúi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Filippseyjum, greindi fjölmiðlum frá þessu í morgun. Hann sagði að það verði að taka með í reikninginn að maðurinn hafi smitast í Wuhan, þaðan sem veiran er upprunnin. 

Maðurinn kom til Filippseyja ásamt konu sem einnig er með veiruna. Hennar tilfelli var það fyrsta sem uppgötvaðist í landinu. Fregnirnar af andláti mannsins voru birtar skömmu eftir að yfirvöld í Filippseyjum ákváðu að banna kínverska ferðamenn tímabundið vegna Wuhan-kórónaveirunnar.

Ferðafrelsi borgarbúa skert

Borgaryfirvöld í Wenzhou í austurhluta Kína ákváðu í morgun að skerða ferðafrelsi íbúa og loka götum. Þetta eru umfangsmestu aðgerðir borgaryfirvalda utan Wuhan, þaðan sem kórónaveiran á upptök sín. Aðeins einn úr hverju heimili má fara út úr húsi annan hvern dag og aðeins til að sækja nauðsynjar. Skólar og háskólar verða lokaðir fram að næstu mánaðamótum, og yfirvöld hvetja einkafyrirtæki til þess að hafa lokað til 17. febrúar, en opinberar stofnanir og fyrirtæki hefja störf 9. febrúar.

Alls eru 305 látnir af völdum veirunnar í Kína og yfir 14 þúsund tilfelli hafa greinst. 340 þeirra sem hafa smitast af veirunni hafa náð sér af veikindunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi