Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Trump ákærður

01.12.2017 - 17:57
epa05791846 (FILE) - A file picture dated 01 February 2017 shows National Security Advisor, retired Lieutenant General Michael Flynn, speaking during a news briefing in the James Brady Press Briefing Room of the White House in Washington, DC, USA.
 Mynd: EPA
Mike Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, hefur verið ákærður fyrir að veita alríkislögreglunni rangar upplýsingar. Hann játaði sekt sína fyrir dómara síðdegis.

Í ákærunni gegn Flynn segir að hann hafi vísvitandi veitt bandarísku alríkislögreglunni, FBI, rangar og sviksamlegar upplýsingar um samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Flynn er sakaður um að hafa veitt alríkislögreglunni þessar fölsku upplýsingar einungis fjórum dögum eftir að Donald Trump var svarinn í embætti forseta Bandaríkjanna. Hann neitaði að hafa átt óviðeigandi samtöl við Kislyak, sendiherra Rússlands, áður en Trump tók við embætti, um viðskiptaþvinganir og aðrar refsiaðgerðir Bandaríkjanna gagnvart Rússum.

Þremur vikum eftir að Trump tók við embætti viðurkenndi Flynn að hafa sagt ósatt og sagði af sér embætti. Flynn var handtekinn í dag og leiddur fyrir dómara. Þar játaði hann sekt sína. Hann sagðist ætla að vinna með Robert Mueller, sérstökum saksóknara alríkislögreglunnar, sem rannsakar tilraunir Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og hvort stuðningsmenn og kosningateymi Trumps hafi verið í einhvers konar sambandi við rússnesk stjórnvöld.