Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrir hverju berjast pönkarar samtímans?

Mynd:  / 

Fyrir hverju berjast pönkarar samtímans?

01.07.2019 - 15:41

Höfundar

Hvernig þrífst pönk á Íslandi í dag og hverjir eru pönkarar samtímans? Hverjir eru þá fulltrúar diskósins? Þessum spurningum og fleirum leitast þau Brynhildur Karlsdóttir og Stefán Ingvar Vigfússon við að svara í Ræflarokki á Rás 2.

Í nýjum útvarpsþáttum sem kallast Ræflarokk skoða umsjónarmenn  pönksenuna í Reykjavík og gera atlögu að því að skilgreina hvað og hvernig pönk er í dag. Pönkið í sínu víðasta samhengi, ekki bara tónlistin heldur lífsviðhorf, aktívisminn og andóf gegn núverandi stöðu. Brynhildur Karlsdóttir tónlistar- og sviðslistakona og Stefán Ingvar Vigfússon sviðslistamaður og grínisti ræða í þáttunum við tónlistarfólk, skipuleggjendur og ýmsa aktívista um þessa jaðarsenu og í fyrsta þættinum heimsækja þau liðsmenn og -konur úr grasrótarútgáfunni Post-dreifingu.

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Rætt verður við meðlimi Bagdad Brothers um pönk á Íslandi í þættinum Ræflarokki.

Hvernig er svo pönk samtímans? Beinist reiðin enn gegn auðvaldinu. Fyrir hverju eru pönkarar samtímans að berjast og gegn hverju? „Við vorum að velta því fyrir okkur í gær, hvað væri pönkið og hvað væri diskóið í dag. Ég er sammála því sem hefur verið sagt að pönk er svo miklu meira en bara tónlistarstefna. Alla vega er pönkið í Reykjavík, frekar en að það sé bara skýr stefna í tónlist sem stjórnar því, þá einkennist pönkið af einhverjum fjölbreytileika. Það eru einhver kjarnagildi sem fólk heldur uppi og eru þau gildi flest í einhverri mótsögn við tónlistarbransann. Og það er bara hið besta mál,“ segja þau Þóra Birgit, Sigurpáll og Bjarni Daníel úr hljómsveitinni Bagdad Brothers. Sú sveit hefur vakið mikla athygli upp á síðkastið og var meðal annars ein þeirra sveita sem tilnefnd var sem Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár. 

Aðstandendur Post-dreifingar vilja meina að pönk fyrirfinnist í raun innan annarra tónlistarstefna og þvert á alla strauma. Það sé ekki mikið tónlistarsnobb innan geirans í dag. Og þá er spurning hverjir eru í diskóbylgjunni sem var hinn andstæði póll pönksins forðum. „Við vorum að rífast um þetta í gær, sumir vilja meina að það sé hipphoppið sem sé diskóið í dag. Ég myndi segja að það sé ákveðinn armur hipphoppsins, það væri svona ákveðinn hluti R&B senunnar sem er diskóið í dag. Þó ekki allt, þar er hluti fólks sem er á jaðrinum og fellur ekki endilega í kramið hjá öllum,“ segja liðsmenn Bagdad Brothers um pönk og diskó dagsins í dag.

„Á árum áður fór maður á pönktónleika og manni var illt í eyrunum og illt á hausnum eftir á en ég finn það núna að ég fæ bara gott í hjartað og hausinn að koma. Það eru falleg málefni og skemmtileg stemning og það er rosalega gaman að vera stór þáttur af viðburðinum og öllu saman,“ segja þau félagar í Bagdad Brothers.  Einnig er rætt við hljómsveitina Gróu í þættinum sem og Ægi Sindra Bjarnason sem heldur úti einum minnsta tónleikastað á landinu, R6013 í Þingholtum í Reykjavík.

Viðtalsbút úr þættinum Ræflarokki má heyra hér með því að smella á myndina efst í fréttinni en fyrri hlutinn verður á dagskrá Rásar 2 í kvöld kl. 23.

Tengdar fréttir

Tónlist

Brjálað stuð á Borðeyri

Tónlist

Ungæðislegur galsi og gæði í mörgum geirum

Tónlist

„Geturðu plöggað okkur í Vikuna?“