Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fylgst með snjóflóðahættu í byggð

10.12.2019 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Norðurlandi og á utanverðum Tröllaskaga er sögð mikil hætta á snjóflóðum. Fylgst er með snjóflóðahættu í byggð en þar sem hættan er mest ofan byggðar hafa verið reistir snjóflóðavarnargarðar, eins og til dæmis á Siglufirði.

Úrkomuákefðin hefur verið að aukast á Norðurlandi, en þar hefur snjóað í allan morgun. Að sögn sérfræðings á vakt á Veðurstofu Íslands er snjóflóðahættan er mest í fjalllendi í Skagafirði, á Tröllasakaga og austur fyrir Eyjafjörð, sérstaklega í bröttum brekkum sem safna snjó í norðan- og norðaustanátt.

Á Vestfjörðum hefur snjóað síðan í gær. Það dregur úr úrkomu þegar líður á daginn. Það er þó varað við snjóflóðahættu á Flateyrarvegi og í Súðavíkurhlíð. Báðir vegir voru enn opnir laust eftir klukkan 14 þegar þessi færsla var skrifuð.