Fylgjast náið með Múlakvísl

Mynd með færslu
 Mynd:
Veðurstofan vaktar enn Múlakvísl í Mýrdalshreppi. Jökulhlaup er ekki hafið en rafleiðni er mikil á svæðinu, eða um 170 míkrósímens á sentimetra, og tiltölulega mikið vatn í ánni, segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hún segir að ástandið á staðnum hafi verið svipað allan júlímánuð. Erfitt sé að segja til um hvenær væntanlegt hlaup hefjist.

Hún segir að Veðurstofan sé með Múlakvísl í sérstakri vöktun. Í byrjun júlí var greint frá því að búast mætti við hlaupi í ánni. Talið er að fyrirvari um hlaupið verði stuttur. Í síðasta hlaupi var hann um 45 mínútur.

Að undanskildu árinu í fyrra hefur hlaupið árlega í ánni síðastliðin ár en búist er við heldur stærra hlaupi í ár en undanfarin átta ár. Eyjólfur Magnússon, sérfræðingur í jöklarannsóknum við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að búast mætti við hlaupi í ágústmánuði. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi