Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fylgjast með áformum Play með áhuga

06.11.2019 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Áhrif nýs flugfélags á ferðaþjónustuna ráðast ekki aðeins af sætaframboði heldur líka þeim tekjum sem ferðamenn skilja eftir sig segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann segir að áhugavert verði að fylgjast með framvindu mála hjá Play og að ferðaþjónustan fagni öllum þeim sem sýna áhuga á Íslandi sem áfangastað.

Fyrrverandi stjórnendur WOW air og annarra félaga kynntu í gær áform sín um rekstur flugfélagsins Play sem hefja á starfsemi í vetur. Aðstandendur Play sögðu í svari við fyrirspurn fréttastofu í morgun að 883 hefðu verið búnir að sækja um vinnu hjá félaginu klukkan níu í morgun og að líklega yrði fjöldinn kominn í þúsund í hádeginu.

Jóhannes Þór segir að öllum sem telji Ísland áhugaverðan áfangastað sé tekið fagnandi. „Það er gaman að sjá það að það hafi íslenskir aðilar áhuga á að prófa að fara í með rekstur flugfélags þrátt fyrir, eigum við að segja, brösótt gengi slíkra félaga undanfarin ár í samkeppni við Icelandair.“ Jóhannes segir að áhugavert verði að fylgjast með því hvernig áformum Play vindur fram. Það muni alltaf um sætaframboð en einnig verði að horfa til þess hversu mikið hver ferðamaður skilji eftir sig.

Ferðamönnum til Íslands fækkaði eftir gjaldþrot WOW air en meðaleyðsla þeirra jókst. 

„Það verður áhugavert að sjá hvernig farþegahópurinn hjá þessu nýja flugfélagi verður. Það hefur náttúrulega eitthvað að gera með hvernig markaðssetningin verður sett upp og til hvaða borga verður flogið. Við erum áhugasöm um að skoða þetta vel,“ segir Jóhannes Þór Skúlason. 

Í gær kom fram að fjármögnun og flugvélaleiga væri tryggð og flugrekstrarleyfi væri handan við hornið. Í Fréttablaðinu í dag segir að grunnfjármögnun hafi verið tryggð, að mestu með lánum. Hins vegar vinni Íslensk verðbréf að því að afla 1.700 milljóna króna í hlutafé hérlendis.