Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fylgjast grannt með óróa í Vatnajökli

20.06.2015 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: M&G/RÚV - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nóg er að gera hjá Veðurstofunni þar en nú fylgst með óróa í Vatnajökli, óstöðugleika á svæðinu frá Krísuvík austur í Ölfuss og gufubólstrum í Holuhrauni. Engin merki eru um eldgos á þessum svæðum en tilefni til að kynna sér hvernig best er að bregðast við jarðskjálftum

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri Jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands segir að órói sé í Vatnajökli eftir Skaftárhlaupið sem varð í vikunni. Einnig sé óstöðugleiki á svæðinu frá Krísuvík austur í Ölfuss. Kristín hvetur fólk til að kynna sér, á síðu Almannavarna, hvernig bregðast eigi við jarðskjálftum.  

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu í gær vegna jarðskjálftavirkni sem verið hefur að undanförnu frá Krísuvík austur í Ölfus. Jarðskjálfti varð upp á fjögur stig við Kleifarvatn í lok maí. Hún segir að óstöðugleiki á svæðinu þýði auknar líkur á jarðskjálfta.  

„Það þýðir náttúrlega ekki að það verði stór skjálfti en þetta er ágætis tækifæri að minna á þessa hættu. Þetta er skjálftasvæði og við vitum að þarna munu koma skjálftar, þarna hafa verið skjálftar og þarna byggist spenna alltaf upp og hún losnar bara í skjálftum.“

Kristín segir að skjálfti geti orðið á svæðinu á morgun eða eftir 20 ár. Hreyfingarnar séu í plötuskilum sem ganga í gegnum landið. Engar vísbendingar séu um eldgos en fólk ætti að búa sig undir jarðskjálfta.

„Fólk ætti að nýta þetta tækifæri til að skoða vefinn hjá Almannavörnum og fara yfir atriði heima hjá sér, tala við börnin og fara yfir þessi mál.“ 

Órói í Vatnajökli
Hlaupið sem hófst í Skaftá í vikunni er ekki mjög stórt og er í rénun. Órói er í Vatnajökli eftir hlaupið. Kristín segir að það sé mjög algengt eftir hlaup.

„Við sitjum stíf og fylgjumst með þessar virkni. Það er ekki alveg vitað hvað veldur svona virkni það gæti verið eitthvað ferli þar sem kerfið er að jafna sig eftir svona atburð.“  Ekkert bendi til þess að eldgos sé hafi í jöklinum. 

Gufubólstrar í Holuhrauni
Í gær urðu menn varir við gufubólstra eina 2 kílómetra upp af Holuhrauni. Ekki eru heldur merki eru um eldgos þar en leysingar og vatnavextir eru í ánnum á svæðinu.

Jökulsá á fjöllum kemur frá Dyngjujökli og rennur utaní norðaustur kant Holuhrauns. 

„Það er auðvitað mikill varmi ennþá í Holuhrauni, þannig að það er í rauninni vatn sem kemst í snertingu við hraunkantinn sem er ennþá að kólna og þá myndast svona bólstrar,“ segir Kristín Jónsdóttir  fagstjóri Jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands