Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 18,3%

23.09.2019 - 14:20
Innlent · Alþingi · Kannanir · mmr · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 18,3% fylgi í nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka. Þetta er lægsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með frá upphafi mælinga MMR. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 43,7% í sömu könnun.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar um tæpt prósentustig frá síðustu könnun, sem þá var minnsta fylgi sem flokkurinn hafði mælst með í kannanasögu MMR. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut um fjórðung atkvæða í þingkosningunum 2017.

Næst stærsti flokkurinn samkvæmt könnun MMR er Samfylkingin. Hún mælist með 14,8%, tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun. Vinstri græn mælast með 12,8% fylgi, Píratar 12,4%, Miðflokkur 12% og Framsóknarflokkur mælist með 11,8%. Viðreisn fylgir fast á eftir með 10,2%, Flokkur fólksins mælist með 4% fylgi og Sósíalistaflokkur Íslands hlýtur tveggja prósenta fylgi í könnun MMR.

Fylgi flokka í könnun MMR

Könnun MMR 23. september 2019 samanborið við kosningaúrslit 2017.

Sjálfstæðisfl.
25,3%
18,3%
Samfylkingin
12,1%
14,8%
Vinstri græn
16,9%
12,8%
Píratar
9,2%
12,4%
Miðflokkurinn
10,9%
12,0%
Framsóknarfl.
10,7%
11,8%
Viðreisn
6,7%
10,2%
Fl. fólksins
6,9%
4,0%
Sósialistafl.
0%
2,0%
Aðrir
0%
1,6%

Heimild: MMR. Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma. Svarfjöldi: 1.045 einstaklingar, 18 ára og eldri. 9. til 16. september 2019.

 

Eins og áður segir hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei mælst með minna fylgi í könnunum MMR. Lægsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með í Þjóðarpúlsi Gallup er 20,6%, í nóvember 2008. Niðurstaða síðustu alþingiskosnina var sú næst lakasta í sögu Sjálfstæðisflokksins, þegar flokkurinn hlaut 25,2%. Árið 2009 hlaut flokkurinn 24% atkvæða.

Á vef MMR segir að allar breytingar á fylgi frá síðustu mælingu séu innan vikmarka, og munurinn á milli mánaða því ekki tölfræðilega marktækur. Könnunin var gerð 9. til 16. september. 1045 einstaklingar, 18 ára og eldri, tóku þátt í könnuninni.