Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fylgi Miðflokksins minnkar um sex prósentustig

02.01.2019 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Fylgi Miðflokksins minnkar um rúmlega sex prósentustig og segjast 5,7 prósent myndu kjósa flokkinn ef alþingiskosningar færu fram í dag. Þetta sýna niðurstöður úr nýjum Þjóðarpúlsi Gallups.

Fylgi Framsóknarflokksins eykst á hinn bóginn um nær fjögur prósentustig en 11,4 prósent segjast myndu kjósa flokkinn nú. Eins eykst fylgi Sósíalistaflokks Íslands um rúmlega tvö prósentustig milli mánaða en rösklega þrjú prósent segjast myndu kjósa flokkinn. Fylgi annarra framboða breytist lítið eða á bilinu 0,2-1,1 prósentustig.

 

22,7 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 18,4 prósent Samfylkinguna, 11,6 prósent Vinstri græn og 10,7 prósent Pírata sem eru með jafn mikið fylgi og Viðreisn. 5,3 prósent segjast myndu kjósa Flokk fólksins. 

Rösklega 12 prósent segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og rúmlega 9 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. Fylgi við ríkisstjórnina minnkar um eitt prósentustig milli mánaða, en 44,8 prósent þeirra sem taka afstöðu segjast styðja hana.

Mynd með færslu
 Mynd:

 

Könnun Gallups á fylgi flokkanna er gerð með spurningalista sem sendur er í tölvupósti og var gögnum safnað dagana 3. desember 2018 til 1. janúar 2019. Heildarúrtaksstærð var 4.899 og þátttökuhlutfall var 58 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,8-1,7%. Einstaklingar í úrtaki voru valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallups.

Spurt var: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?

En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?

Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?

Styður þú ríkisstjórnina?

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV